Skoðun

Einkarekstur og útvistun

Jón Sigurðsson skrifar
Almannavaldið hlýtur að móta stefnu og viðmið á mikilvægustu sviðum velferðar-, fræðslu- og heilbrigðisþjónustu og á fleiri sambærilegum sviðum. Ríki og sveitarfélög greiða mest af þessari starfsemi. Eðlilega fara þau þá líka með yfirstjórn, stefnumótun og eftirlit.

En það hæfir vel að frjáls samtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir einkaaðilar taki að sér framfylgju og rekstur þeirra stofnana sem starfa að þessum málum. Reynsla er ágæt af því að rekstur sé ekki á höndum embættismanna.

Þetta getur átt við um t.d. öldrunarstofnanir, hjúkrunarheimili, heilsugæslu og læknastofur, uppeldisstofnanir, leikskóla, skóla og háskóla, rannsókna- og ráðgjafarstarfsemi, íþróttastarfsemi, söfn og sýningarsali, leikhús og aðra listastarfsemi og ýmislegt fleira.

Það skiptir miklu máli hvernig almannavaldið, ríki og sveitarfélög, ráðstafar þessum verkefnum. Vanda ber til samninga um slíka útvistun. Hún verður að lúta skýrum skilmálum: a) Almannavaldið setur stefnu, viðmið og mælistikur, og ákvarðar um gæði. b) Almannavaldið sér um virkt eftirlit, þ.m.t. gæðaeftirlit og fjárhagseftirlit. c) Almannavaldið hefur rétt til endurskoðunar samninga.

En þessir skilmálar eru ekki fullnægjandi. Við verður að bæta þessum: d) Sambærilegar mælistikur verði notaðar í útvistun sem í opinberum stofnunum á sama sviði. Þetta á m.a. við um umfang og umsvif, magn og gæði, aukastörf og viðbætur, hagræðingu og greiðslur.

Við þessa skilmála verður líka að bæta þessum: e) Arður verði ekki greiddur af starfseminni, nema þá samkvæmt skýrum sértækum heimildarákvæðum í þjónustusamningi. f) Sama gildi um greiðslur af skuldabréfum. Fyrir verða að liggja í samningi m.a. skýr ákvæði um stofnkostnað og afskriftir, endurnýjun og þróunarkostnað. g) Laun og þóknanir eigenda og stjórnenda í víðum skilningi fylgi viðmiðum sem skilgreind eru sérstaklega í þjónustusamningi.

Vandi er að semja þannig að málefnalegt sé og verki ekki aðeins til fælingar. Tryggja verður svigrúm og eðlilega hvata til þróunar, hagræðingar, gæða og umsvifa, en starfsemin verður jafnframt að vera laus við arðsókn.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×