Innlent

Rajeev fær að dvelja áfram á landinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rajeev Ayer hefur verið hér á landi frá því árið 2016 en hann stundar leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á Keili.
Rajeev Ayer hefur verið hér á landi frá því árið 2016 en hann stundar leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á Keili. Vísir/Stefán
Kanadíski námsmaðurinn Rajeev Ayer fær að dvelja á landinu á meðan ný umsókn hans um dvalarleyfi verður tekin fyrir. Elín Esther Magnúsdóttir, vinkona Rajeevs, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Í umfjöllun Vísis um málið á laugardag kom fram að Útlendingastofnun hygðist vísa Rajeev úr landi vegna galla í umsókn hans um dvalarleyfi, einungis fjórum vikum áður en hann hefði lokið leiðsögumannsnámi við Keili.

Fær að klára námið

Í Facebook-færslu Elínar, sem uppfærð var nú á fimmta tímanum í dag, segir að eftir fjölmiðlaumfjöllun um mál Rajeevs hafi Sigríður Andersen dómsmálaráðherra óskað eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um meðferð umsóknarinnar.

„Kom þá í ljós það sem bent hafði verið á: Stofnunin hafði gert mistök við úrvinnslu umsóknar hans,“ skrifar Elín.

Í ljósi þess hefur Rajeev verið gert kleift að vera á landinu á meðan stofnunin tekur nýju umsóknina til umfjöllunar. „Hann getur því væntanlega lokið náminu, sem er aðalatriðið,“ segir enn fremur í færslu Elínar.

Þá vill Rajeev koma á framfæri þakklæti fyrir að vekja athygli á máli hans en þegar þetta er skrifað hafa 390 manns deilt færslunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×