Örvar Gunnarsson deildi myndbandinu á Facebook-síðu sinni í gær. Hann segist í samtali við Vísi hafa verið fyrir aftan umræddan bíl frá Hvalfjarðargöngum og langleiðina í Borgarnes. Þá telur hann að um bílaleigubíl hafi verið að ræða.
„Þessi þrumaði næstum því framan á nokkra á leiðinni,“ skrifar Örvar enn fremur í athugasemd við færslu sína. Þá segist hann hafa tilkynnt atvikið til lögreglu.
Í myndbandinu sést hvernig bíllinn sveigir ítrekað inn á öfugan vegarhelming á ferð sinni um þjóðveginn. Í nokkrum tilvikum má sjá bifreiðar nálgast úr öfugri átt en ökumaðurinn kemur sér þó ætíð inn á réttan vegarhelming áður en illa fer. Hægt er að horfa á myndbandið í færslunni hér að neðan.