Aska breska stjarneðlisfræðingsins Stephens Hawking verður grafin inni í Westminsterklaustri í London nærri gröfum annarra mikilla vísindamanna eins og Isaac Newton og Charles Darwin. Afar fáir verða þess heiðurs aðnjótandi.
Hawking lést í síðustu viku, 76 ára að aldri. Hann var einn þekktasti vísindamaður samtímans, bæði fyrir rannsóknir hans á svartholum og uppruna alheimsins en ekki síður vegna hreyfitaugungahrörnunar sem hrjáði hann nær öll fullorðinsár hans.
Kóngafólk og nokkrir mikilvægustu einstaklingar í sögu Bretlands eru grafnir í Westminsterklaustrinu. Í tilkynningu frá klaustrinu kom fram að haldin verður sérstök þakkargjörðarmessa til heiðurs Hawking síðar á þessu ári. Þá verði aska hans grafin.
Newton var grafinn í Westminster árið 1727 en hann lagði grundvöllinn að nútímastærðfræði og setti fram kenninguna um þyngdaraflið. Darwin, höfundur þróunarkenningarinnar, var grafinn nærri Newton árið 1882, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Síðustu vísindamennirnir sem voru grafnir í Westminster voru þeir Ernest Rutherford, frumkvöðull í kjarneðlisfræði árið 1937 og Joseph John Thomson árið 1940. Thomson uppgötvaði rafeindir.
Hawking verður grafinn nærri Newton og Darwin
Tengdar fréttir
Stephen Hawking látinn
Raunvísindamaðurinn Stephen Hawking er látinn, 76 ára að aldri.
Hawking glæddi áhuga íslenskra vísindamanna á heimsfræði
Tveir íslenskir stjarneðlisfræðingar heilluðust af heimsfræði við lestur bóka Stephens Hawking. Hann lést í morgun, 76 ára að aldri.