Erlent

Húsleit hjá BMW vegna rannsóknar á útblásturssvindli

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfuðstöðvar BMW í München í Þýskalandi. Fyrirtækið er helst þekkt fyrir sportbíla sína.
Höfuðstöðvar BMW í München í Þýskalandi. Fyrirtækið er helst þekkt fyrir sportbíla sína. Vísir/AFP
Þýskir saksóknarar gerðu húsleit á skrifstofu bílaframleiðandans BMW í München í dag. Húsleitin tengist rannsókn þeirra á svindli bílaframleiðenda á útblástursprófum. Kanna þeir hvort að hugbúnaður í dísilbílum BMW hafi verið notaður til að láta þá líta út fyrir að menga minna í prófunum.

Hneykslið í kringum svindlið á útblástursprófunum hefur leikið suma þýska bílaframleiðendur eins og Volkswagen grátt. Fyrirtækið hefur þurft að greiða milljarða dollara í sektir. BMW hefur hins vegar fram að þessu verið ósnortið af því, að því er segir í frétt New York Times.

Um hundrað rannsakendur tóku þátt í húsleitinni í München og í vélarverksmiðju í Austurríki. Þeir segja að rannsóknin beinist að því hvort að hugbúnaðurinn takmarki mengun frá bílnum þegar verið er að prófa hann en leyfi meiri útblástur þegar hann er kominn út á göturnar.

Í yfirlýsingu segja forsvarsmenn BMW að hugbúnaðurinn sem var orsök húsleitarinnar hafi verið settur upp fyrir mistök. Fyrirtækið hafi ekki ætlað að blekkja yfirvöld vísvitandi. Það ætlar að innkalla á tólfta þúsunda bíla sem eru með hugbúnaðinn.

Til samanburðar var hugbúnaður sem notaður var til að svindla á prófum í ellefu milljónum bifreiða Volkswagen um víða veröld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×