Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum til mánudagsins 9. apríl á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Tilkynnt var um lát mannsins sem var á sjötugsaldri í morgun. Tveir bræður hans sem voru á bænum voru færðir til skýrslutöku í dag. Lögreglan segir að merki hafi fundist um átök en hefur sagt of snemmt að skera úr um hvort að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.
Tveir bræðranna voru gestkomandi hjá þeim þriðja. Það var annar bræðranna sem tilkynnti um málið til lögreglu.
Til stendur að kryfja lík mannsins á þriðjudag.
Uppfært 22:51 Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi um gæsluvarðhald yfir manninum.
Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Það var svo á níunda tímanum í kvöld sem ákveðið var að krefjast gæsluvarðhalds yfir öðrum bróðurnum en sleppa hinum.