Innlent

Ummerki um átök á bænum þar sem maður lést

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður á vettvangi í Biskupstungum í dag.
Lögreglumaður á vettvangi í Biskupstungum í dag. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Lögreglan segir að ummerki séu um að átök hafi átt sér stað á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu þar sem maður á sjötugsaldri fannst látinn í morgun. Tveir bræður mannsins bíða skýrslutöku hjá lögreglu.

Í frétt á vef lögreglunnar kemur fram að sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem aðstoðar lögregluna á Suðurlandi við rannsókn málsins, séu nú að ljúka störfum á vettvangi.

Ábúandi á bænum, sem tilkynnti um lát mannsins, ásamt öðrum manni sem einnig var staddur á vettvangi, eru í haldi og bíða skýrslutöku hjá lögreglu. Mennirnir þrír eru bræður og voru tveir þeirra gestkomandi hjá þeim þriðja.

Dánarorsök mannsins liggur ekki fyrir en réttarkrufning verður framkvæmd strax eftir helgi til að leiða hana í ljós.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur í málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×