Sýningin sem klikkar byrjaði sýningarskeið sitt í litlu pöbbaleikhúsi í London en er nú á sigurför um heiminn. Handritið er skrifað af alúð, nákvæmni og virðingu gagnvart glæpasöguforminu en vægðarlaust grín er gert að því sömuleiðis, sem og farsahefðunum. Í hverri senu er margt að gerast í einu enda tvö leikrit í gangi á sama tíma sem er gífurlega krefjandi fyrir leikarana. Stöðugt er spilað með væntingar áhorfanda og fimmaurabröndurunum hreinlega rignir yfir sviðið. Karl Ágúst Úlfsson þýðir verkið og tekst vel til í heildina, þó að rannsóknarlögregluorðasúpan hjá Cecil Haversham hafi ekki hitt alveg í mark.
Bergur Þór er hér í essinu sínu enda hokinn af grínreynslu. Bestu atriðin eru þó þegar hann er við það að gefast upp, enda er sýningin alls ekki að ganga upp. Bugun hans er nánast áþreifanleg og óstjórnlega fyndin. Kristín Þóra sýnir á sér nýjar hliðar í hlutverki þernunnar frú Perkins en hún á mjög bágt með að muna línurnar sínar. Tímasetningarnar hennar eru hárfínar, viðbrögðin við mistökum óborganleg og legusófatilburðirnir undir lok sýningarinnar kómískt gull.
![](https://www.visir.is/i/E9558D2F0B1BBAEDF9089866AFB75392AF2F1E1398CCFC4A7D48140568A1EE0B_390x0.jpg)
Davíð Þór er að stimpla sig inn sem einn mest spennandi ungi leikari landsins. Hér sýnir hann bæði breidd og þroska í sínum leik, en ber sig einnig vel í hlutverki sem er allt annað en auðvelt. Birna Rún gerir vel sömuleiðis, sérstaklega í líkamlega gríninu og gefur sig alla í hlutverk sem tekur mjög á.
Sýningunni er leikstýrt af Halldóru Geirharðsdóttur sem er svo sannarlega á heimavelli. Litlar skyggingar á sviðsetningunni svo sem að láta persónur glæpaleikritsins stöðugt tala út í sal dýpkar framsetninguna og handapati leikaranna er stýrt af öryggi. Aftur á móti verður skarkalinn svo yfirþyrmandi undir lok sýningarinnar að erfitt er að fylgjast með og hvað þá að heyra orðaskil.
Leikmynd Helgu I. Stefánsdóttur er listasmíð. Ekki vegna þess að viðkvæma settið sé sérstaklega fallegt heldur einmitt vegna þess að það er mátulega ósmekklegt sem hæfir stykkinu Morð á meðal vor einkar vel. Einnig þarf lausnamiðað hugvit til að leysa allt það sem úrskeiðis fer meðan á sýningunni stendur. Búningarnir eru einnig vel valdir, þá sérstaklega rannsóknarlögreglumannsins sem er sveipaður Sherlock Holmes skikkju. Önnur tæknileg mál eru vel leyst, þá helst ofurdramatíska kúnstpásan sem leikararnir taka þegar uppljóstranir koma í ljós.
![](https://www.visir.is/i/FBF4689E8CB1CE6BB9FC2B75D969414E646D507B00EC9433E23A00BC8EC221C5_713x0.jpg)
Niðurstaða: Flottur farsi í höndunum á sterkum leikhópi.