Erlent

Geoffrey Rush einangraður og lystarlaus

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Leikarinn Geoffrey Rush þvertekur fyrir ásakanirnar.
Leikarinn Geoffrey Rush þvertekur fyrir ásakanirnar. Vísir/AFP
Ástralski stórleikarinn Geoffrey Rush fer ekki út úr húsi og hefur lítið sem ekkert borðað eftir að hafa verið sakaður um „ósæmilega hegðun,“ ef marka má gögn sem liggja nú fyrir áströlskum dómstólum. Í eiðsvarinni yfirlýsingu lögmanns leikarans, sem gerð var opinber í morgun, kemur fram að Rush hafi mátt þola „gríðarlegar sálrænar og félagslegar kvalir,“ eftir að Daily Telegraph birti röð greina um hegðun leikarans í fyrra.

Rush hefur kært blaðið og blaðamann þess, Jonathon Moran, fyrir ærumeiðingar en í greinunum var hegðun leikarans lýst í aðdragana frumsýningar Lés konungs í Sydney árið 2015. Er hann sagður hafa hagað sér með óviðeigandi hætti gagnvart samstarfsmönnum sínum, án þess þó að lýsa því í smáatriðum í hverju sú hegðun fólst. Hann er þó talin hafa snert meðleikonu sína þannig að jaðrað hafi við kynferðislega áreitni.

Sjá einnig: Geoffrey Rush víkur vegna ásakana

Útgefendur blaðsins halda því enda fram að ekkert sé fullyrt um afbrigðilega framgöngu Rush og að hann sé ekki málaður upp sem kynferðisbrotamaður í greinunum, eins og lögmaður leikarans hefur látið í veðri vaka.

Föst skot hafa gengið á milli lögmannanna í málinu og óttast lögmaður Rush að verið sé að reyna að fresta málinu fram í hið óendanlega. Fram til þessa hefur verið gert ráð fyrir aðalmeðferð í málinu í desember en það gæti dregist nái lögmenn blaðsins sínu fram.

Rush hefur allt frá upphafi þvertekið fyrir ásakanirnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×