Breiðfylking kvenna hittist í dag og ákvað að bjóða fram í borginni í vor. Markmið framboðsins er að setja femínísk málefni á oddinn í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framboðinu sem birt var á Kjarnanum.
Þar segir að framboðið sé innblásið af #metoo og þeim miklu samfélagslegu áhrifum sem það hefur haft. „Innblásnar af kraftmiklum hreyfingum eins og #MeToo, #karlmennskan, hræringum í stéttarbaráttunni og eigin reynsluheimi ætlum við að bjóða fram afl sem boðar aðgerðir í málefnum sem tryggja öryggi, aðgengi og áhrif allskonar kvenna og jaðarsettra hópa í samfélaginu,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni segir að Kvennaframboð sé ávöxtur uppbyggingarvinnu sem farið hefur fram í kjölfar baráttufundar kvenna á Hótel Sögu í október síðastliðnum. Á fundinum hittist stór hópur kvenna í „réttlátri reiði yfir því bakslagi sem varð í jafnrétti eftir Alþingiskosningarnar í október síðastliðnum“ segir í tilkynningu.
Laugardaginn 14. apríl verður boðað til framhaldsstofnfundar þar sem konur með áhuga á þátttöku í sveitarstjórnarmálum eru hvattar til að mæta.
Innlent