Innlent

Vantreystir ríkisstjórninni og vill fella hana

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, talaði tæpitungulaust um viðhorf sitt í garð ríkisstjórnarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, talaði tæpitungulaust um viðhorf sitt í garð ríkisstjórnarinnar. Vísir/Anton
„Ég styð ekki þessa ríkisstjórn. Ég vantreysti ríkisstjórninni og ráðherrum hennar, almennt, og vil fella hana,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, þegar hann er spurður hvort hann hafi greitt atkvæði með vantrauststillögu á dómsmálaráðherra gegn eigin sannfæringu.

Sigmundur var gestur Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns allsherjar-og menntamálanefndar, í nýja þættinum Þingvellir sem er á útvarpsstöðinni K100.

Aðspurður hvort Sigmundi hefði ekki þótt raunverulegt tilefni til vantrausts á ráðherra, flokkssystur Páls þáttastjórnanda, segir Sigmundur að honum finnist almennt ekki góður bragur yfir því að lýsa yfir vantrausti á einn ráðherra. Hann hefði fremur viljað standa þannig að málum að vantraustið hefði náð utan um ríkisstjórnina í heild sinni.

Sigmundur segir þó að atkvæðagreiðslan hafi leitt það í ljós að ef vantraust á einn ráðherra er samþykkt þýði það í raun að ríkisstjórnin sé fallin því hún hafi ekki stuðning 35 þingmanna eins og áður var talið heldur 33.

„Ég er tilbúinn að styðja vantraust á ríkisstjórnina alla, eða einstaka ráðherra, á morgun. Ég styð ekki þessa ríkisstjórn, ég er í andstöðu við hana og ég vil fella hana,“ segir Sigmundur til að útskýra hvers vegna hann greiddi atkvæði með tillögunni. Hann hefði þó frekar talið tilefni til þess að lýsa yfir vantrausti á aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar umfram dómsmálaráðherra.

Sigmundur segir að hann hafi ekki verið beðinn um að veita ríkisstjórninni hlutleysi og ítrekar að hann sé í beinni andstöðu við hana.


Tengdar fréttir

Telur að hún hafi stuðning þingsins

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segist ávallt fagna því að geta rætt sín störf en Samfylkingin og Píratar hafa lagt fram vantrauststillögu á ráðherrann vegna Landsréttarmálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×