Innlent

Það verði engin sókn í velferðarmálum án starfsfólksins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson og Drífa Snædal töluðu um leiðir til að bæta kjör og starfsumhverfi kvenna.
Hanna Katrín Friðriksson og Drífa Snædal töluðu um leiðir til að bæta kjör og starfsumhverfi kvenna. Vísir/t.v.: ernir eyjólfsson og t.v. gunnar v. Andrésson
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir að það sé ekki hægt að tala um sókn í velferðarmálum ef velferðarkerfin hafi ekkert fólk til að leiða þá sókn. Hanna tekur mið af hinum mikla fólksflótta sem orðið hefur í kvennastéttum, svokölluðu, hjá hinu opinbera.

Hún, ásamt þingflokki sínum, Viðreisn, lögðu fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, tekur undir með orðum Hönnu en bendir jafnframt á að kvennastéttir, á borð við ljósmæður, vilji vekja athygli á því mikla álagi sem fylgir starfinu, sem þyrfti að létta á.

Þetta sögðu þær Hanna Katrín og Drífa í stjórnmálaþættinum Silfrinu á RÚV.

Í þingsályktunartillögunni er farið þess á leit að Alþingi leiði samtal á milli ríkis og sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins í samstilltu átaki um bætt kjör kvennastétta. Hanna Katrín segir að þó að talað sé um bætt kjör sé í raun og veru verið að tala  um leiðréttingu á launum, umfram allt annað.

„Afleiðing er sú að við erum að horfa fram á fólksflótta úr þessum stéttum. Ef um væri að ræða stéttir á hinum almenna markaði þá mundu samspil eftirspurnar og framboðs lagfæra þetta á einhvern hátt, það gerist ekki vegna þess að þetta er hjá hinu opinbera og er háð kjarasamningum,“ segir Hanna Katrín.

Við vinnslu þingsályktunartillögunnar las Hanna Katrín stjórnarsáttmála langt aftur í tímann og sá að stjórnmálamenn hafa löngum viðurkennt þennan vanda; vandamálið hafi verið gegnumgangandi en sökum þess að kvennastéttir eru yfirleitt fjölmennar þyrfti stórar fjárhæðir til að leysa verkefnið.

„...en við erum komin að þeim mörkum núna að það kostar meira að gera ekki neitt. Við getum ekki talað um sókn í velferðarmálum og í menntamálum með því að setja einhverja fjármuni inn í grunninn ef við höfum ekki fólk til að leiða þessa sókn.“

Segir líka mikilvægt að létta álagið

Drífa Snædal tekur undir með Hönnu og segir mikilvægt að meta störf til kjara með réttlátari hætti en bendir jafnframt á að launakjör eru ekki það eina vandamálið sem kvennastéttir eiga við.

„Konum fjölgar hressilega á örorku, það er líka út af því að það er meira álag í kvennastörfum heldur en karlastörfum. Þau eru meira krefjandi, líkamlega og andlega,“ segir Drífa. Hún segir kjarabaráttu ljósmæðra varpa ljósi á þetta.

Hún bendir á að vaktavinna sé mjög algeng og einkennandi fyrir umönnunar-og heilbrigðisgeirann. Ljósmæður eru þar engin undantekning. Henni finnst krafan um að 80% starf verði ígildi 100% starfs sanngjörn í ljósi álagsins sem fylgi slíkum vinnutímum.

Vonast eftir stefnubreytingu

Þingsályktunartillaga Viðreisnar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta bíður afgreiðslu í nefnd Alþingis. Hanna Katrín segir að tíminn sé vissulega naumur en hún vonast til þess að með þingsályktunartillögunni verði stefnubreyting í málefnum kvennastétta.


Tengdar fréttir

Þjóðarsátt um kjör kvennastétta

Kynbundinn launamunur er staðreynd á íslenskum vinnumarkaði. Konur hafa að meðaltali 13% lægri laun en karlar. Óútskýrður launamunur er 5,7%. Í síðustu kosningabaráttu lagði Viðreisn áherslu á lögbindingu jafnlaunavottunar og Alþingi samþykkti þann 1. júní lög þess efnis.

Neyðarástand gæti skapast á fæðingardeildum í sumar

Nokkrar af þeim ljósmæðrum sem hafa sagt upp störfum sínum hafa þegar ráðið sig til annarra starfa að sögn formanns kjaranefndar ljósmæðra. Ef ekki takist að semja í kjaradeilunni á næstu mánuðum gæti skapast neyðarástand á fæðingardeildum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×