Erlent

14 látin eftir rútuslys í Kanada

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fjórtán létu lífið og aðrir fjórtán eru slasaðir eftir að flutningabíll og rúta skullu saman.
Fjórtán létu lífið og aðrir fjórtán eru slasaðir eftir að flutningabíll og rúta skullu saman.
Lögregluyfirvöld í Kanada hafa staðfest að þrettán ungmenni, auk bílstjóra, létust þegar vöruflutningabíll lenti á rútu með 28 farþegum í gær. Í rútunni var ungmennaliðið í íshokkí Humboldt Broncos sem eru á aldrinum 16 til 21 árs.

Hinir 14 þurftu að leita aðhlynningar á sjúkrahúsi og þá eru þrír eru alvarlega slasaðir. Íshokkíliðið var skammt norður af Tisdale í Saskatchewanhéraði þegar bifreiðarnar skullu saman. Klukkan var fimm að kanadískum tíma.

Ted Munro, aðalvarðstjóri, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að viðbragðsaðilar hafi sett upp upplýsinga-og stuðningsmiðstöð í Nipawin Apostolic kirkjunni fyrir aðstandendur.

„Við biðjum fyrir fjölskyldunum,“ segir Munro.

Myles Shumlanski, faðir eins stráksins sem lenti í slysinu, mætti á vettvang slyssins eftir að sonur hans hringdi í hann. Faðirinn sagði frá því hvað fyrir augum bar: „Þetta var stórslys. Það þurfti krana til að lyfta rútunni,“ segir Shumlanski sem segir aðkomuna hafa verið skelfilega.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tjáði sig um slysið á Twitter í nótt og sagðist ekki getað ímyndað sér hvað foreldrarnir væru að ganga í gegnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×