Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 22-20 | Frábær seinni hálfleikur Valskvenna

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Valur vann tveggja marka sigur á Haukum í fyrsta leik liðana í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í kvöld, 22-20. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og leiddu gestirnir að honum loknum með einu marki, 9-10. 

Góður varnarleikur var meðal liðana frá fyrstu mínútu en lítið var skorað í fyrri hálfleiknum og þá sérstaklega fyrsta stundarfjórðunginn og staðan þá 5-5. Gestirnir voru smá tíma að finna sig í sókninni en markmaður Hauka, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, hélt þeim inní leiknum. Elín Jóna var frábær í fyrri hálfleik með yfir 50% markvörslu. Valur var ekki að sýna sitt rétta andlit í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn hjá þeim var óskipulagður og hikstandi á meðan Haukar fundu sig betur með hverri mínútu en staðan þegar liðin gengu til hálfleiks 9-10 Hafnfirðingum í vil. 

Í upphafi síðari hálfleiks fengu tveir leikmenn Hauka brottvísun með 10 sekúndna millibili og gestirnir því tveimur mönnum færri. Valur nýtti sér yfirtöluna og jöfnuðu leikinn í 11-11. Örfáum mínútum síðar meiddist lykilleikmaður Hauka, Berta Rut Harðardóttir, illa eftir samstuð við Gerði Arinbjarnar. Gerður fékk beint rautt spjald fyrir vikið. Brotið var ljótt og óvíst er með framhaldið hjá Bertu sem var borin af velli. 

Eftir þetta atvik datt leikur Hauka niður á meðan Valskonur tvíefldust. Haukar fundu enga leið í gegnum þéttann varnarleik Vals og ef þær fundu leið þá beið þeirra Lina Rypdal í markinu sem var farin í gang. Haukar skoruðu sitt þriðja mark í seinni hálfleik á 50. mínútu en þá lauk 9-1 kafla Vals og staðan 18-13. Eftir það var brekkan brött fyrir hafnfirðinga sem komu þó sterkar inn síðustu 10 mínúturnar en þurftu að sætta sig við tap í fyrstu viðureign liðana. Lokatölur 22-20. 

Af hverju vann Valur?

Frábær frammistaða í síðari hálfleik skilaði þeim sigrinum í dag. Þær komu sterkar út í seinni hálfleikinn eftir að hafa verið á hælum sér í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn þéttist í seinni hálfleik og við það hrökk Lina Rypdal í gang fyrir aftan þær í markinu. 

Hverjar stóðu uppúr? 

Díana Dögg Magnúsdóttir átti góðan leik í liði Vals. Anna Úrsula Guðmundsdóttir var flott í vörninni og Kristín Guðmundsdóttir átti einnig fínan leik. Markmaður liðsins, Lina Rypdal, átti góðan síðari hálfleik og var með yfir 40% markvörslu í leiknum. 

Elín Jóna Þorsteinsdóttir var frábær í markinu hjá Haukum í fyrri hálfleik þar sem hún var með yfir 50% markvörslu. Það varð breyting á því í síðari hálfleiknum hjá henni sem og öllu liðinu. Guðrún Erla Bjarnadóttir átti fínan leik í dag. 

Hvað gekk illa? 

Fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks hjá Haukum gekk ansi illa, 9-1 kafli hjá Val gerði útum leikinn fyrir þær. Haukar fóru að missa leikmenn útaf í tveggja mínútna brottvísanir og voru mikið einum leikmanni færri í síðari hálfleik. 

Hvað er framundan? 

Annar leikur í einvígi þessara liða er á föstudaginn klukkan 19:30 í Schenkerhöllinni.  

Elías Már Halldórsson, þjálfari HaukaVísir/Getty
Elías Már: Glórulaus tækling

„Þetta var mjög erfitt í seinni hálfleik“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, að leik loknum.



„Ég er alveg ánægður með stelpurnar, mér fannst við vera að spila vel, frábær vörn og markvarslan var góð, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það er margt gott sem við tökum með okkur eftir þennann leik og það er alveg á hreinu að við ætlum að borga fyrir þetta á föstudaginn.“

„Við vorum rúmar 20 mínútur einum færri í seinni hálfleiknum, mér fannst halla verulega á okkur í kvöld. Það er bara mjög erfitt að vinna jafn sterkt lið og Val þegar þú ert einum færri nánast heilan hálfleik.“ sagði Elías Már en hann var ekki sáttur við dómgæslu leiksins. 

„Við fengum tvær brottvísanir í byrjun seinni hálfleiks, annað þeirra var algjör þvæla og hitt var bara brot sem var búið að viðgangast allan leikinn. Við erum þá orðnar tveimur undir og svo missum við líka Bertu Rut útaf fyrir alveg glórulaust brot, hún er lykilmaður hjá okkur,  þetta var bara mikið á stuttum tíma. Við hefðum kannski getað unnið betur úr þessu en það er bara eitthvað sem ég þarf að kíkja betur á“ 

Elías Már var allt annað en sáttur við Gerði Arinbjarnar eftir brot hennar á Bertu Rut. Gerður var of sein í boltann sem endaði með harkalegu samstuði. Brotið leit ekki vel út en Elías vissi ekki hvernig staðan á Bertu væri

„Þetta var algjörlega fáranlegt, tveggja fóta tækling útá miðjum velli. Ef hún fær ekki tvo - þrjá leiki í bann fyrir þetta þá væri það fáranlegt. Hún stökk með báðar fætur á undan sér og klippti Bertu niður, þetta var mjög ljótt“

„Vonandi er í lagi með hana, en það kæmi mér ekki á óvart ef hún væri frá út tímabilið miðað við fyrstu viðbrögð“ sagði Elías að lokum um stöðuna á Bertu Rut. 

 

Ágúst Þór: Við vorum taktlausar

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn í fyrstu viðureign liðana.



„Við spiluðum virkilega vel í síðari hálfleik, varnarleikurinn var þéttari og sóknarleikurinn var yfirvegaðari. Við vorum taktlausar í fyrri hálfleik og full mikið óðagot á okkur oft á tíðum. Við þurftum meiri gæði í spilamennskuna og Elín Jóna var að verja gríðalega mikið á meðan markvarslan var ekkert spes okkar megin. Þetta var bara hörkuleikur og ég er ánægður með að hafa náð í sigurinn.“ 



„Í síðari hálfleik þá þéttum við raðirnar varnarlega og neyddum þær í erfiðari skot. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur sem og þetta var, þær eru mjög skipulagðar og vel spilandi. Við þurfum að nota daginn á morgun vel og koma ferskar í leikinn á föstudaginn.“ sagði Ágúst en hann sagði að það væru hlutir sem hann vildi sjá betur fara fyrir næsta leik. Þá aðallega hvernig stelpurnar byrjuðu leikinn, fyrri hálfleikinn var hann ekki sáttur með bæði varnar- og sóknarlega. 

Ágúst Þór hafði lítið að segja við brotinu á Bertu Rut en viðurkennir að honum hafi þótt þetta óþarfa brot hjá Gerði Arinbjarnar

„Ég hef svo lítið vit á þessari dómgæslu, þetta var auðvitað brot en hvort þetta var rautt spjald eða tvær mínútur veit ég ekki. Klárlega fór hún of harkalega í hana og þetta var brot en þetta var algjört óviljaverk, Gerður er mjög heiðarleg og góð stelpa. Vonandi er Berta ekki illa meidd því hún er frábær leikmaður.“ sagði Ágúst Þór að lokum

 

Kristín: Gerður er ekki hraðasti leikmaður í heimi

„Mér fannst þetta sérstakur leikur“ sagði Kristín Guðmundsdóttir, leikmaður Vals. 

„Ég veit ekki hvort að spennustigið hafi bara verið alltof lágt. Við einhvernveginn komumst ekki í gírinn, vorum einu tempói of neðarlega í fyrri hálfleik og það vantaði alla baráttu í vörnina hjá okkur.“ 

„Síðan skelltum við í lás í seinni hálfleik og spiluðum yfirvegaðan sóknarleik. Svo þéttum við vörnina og fáum þá hraðari bolta frá markmanninum okkar sem okkur vantaði í fyrri hálfleik, þá náðum við að keyra á þær.“ sagði Kristín sem var ánægð með seinni hálfleik liðsins og er spennt fyrir leiknum á föstudaginn 

„Það verður engin breyting þá, við ætlum að mæta þeim svipað og við gerðum í dag. Þétt vörn og kannski aðeins meiri barátta.“

„Gerður var bara alltof sein í þetta, hún ætlaði sér bara svo mikið að ná þessum bolta en var of sein. Gerður er bara þannig týpa að hún myndi aldrei gera þetta viljandi. Ég ætla svo sem ekkert að vera leiðinleg við Gerði en hún er ekkert hraðasti leikmaður í heimi, ég sá þetta gerast mjög hægt en hún var bara of sein að renna sér í þennann bolta.“ sagði Kristín um brot Gerðar á Bertu Rut.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira