Alex van der Zwaan, hollenskur lögfræðingur með tengsl við fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur verið dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og til að greiða 20 þúsund dollara sekt. Van der Zwaan hefur játað að hafa logið að alríkislögreglu bandaríkjanna um störf sín í Úkraínu með Paul Manafort og Rick Gates, fyrrverandi kosningastjórum Trump.
Í gögnum málsins kemur fram að van der Zwaan og Gates hafi fundað með viðskiptafélaga sem var rússneskur fyrrverandi leyniþjónustumaður síðustu mánuðina fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.
Þetta er fyrsti dómurinn sem fellur vegna rússarannsóknarinnar svokölluðu.
Rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, beinist að tilraunum rússneskra stjórnvalda til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016 og hvort að þau hafi átt í samráði við framboð Trump.
