Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins, segir að engin niðurstaða hafi fengist í kjaradeilu félagsins við ríkið og enn beri töluvert í milli. Ríkissáttasemjari sér því ekki ástæðu til að boða til næsta samningafundar fyrr en eftir tvær vikur.
„Deilan er í raun stál í stál,“ segir Áslaug.
Aðspurð hvort að staðan sé þá sú sama og var fyrir páska segir Áslaug jafnvel megi segja að deiluaðilar hafi hugsanlega færst hvor frá öðrum heldur en í hina áttina.

Þá hefur verið stofnaður Facebook-hópurinn Mæður og feður sem standa með ljósmæðrum. Tæplega 15 þúsund eru meðlimir í hópnum og hafa á seinustu dögum hrúgast þar inn reynslusögur foreldra af ljósmæðrum.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands, sagði í samtali við Vísi í morgun að þessi mikli stuðningur í samfélaginu við kjarabaráttu stéttarinnar kæmi á óvart.
„Maður hefur alltaf fundið fyrir velvild í samfélaginu og auðvitað fylgir okkar störfum mikið tilfinningarót og þakklæti. En þetta er alveg framar okkar björtustu vonum. Maður situr alveg klökkur að lesa allar kveðjurnar undanfarna daga. Þetta er alveg ótrúlega dýrmætt,“ sagði Katrín.