Erlent

Ekki gefin út ákæra vegna dauða Prince

Þórdís Valsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn Prince.
Tónlistarmaðurinn Prince. Vísir/Getty
Saksóknari í Minnesota-ríki segir að ekki verði gefin út ákæra vegna dauða tónlistarmannsins Prince sem lést árið 2016. BBC greinir frá.

Tónlistarmaðurinn góðkunni lést af ofneyslu verkjalyfsins Fentanyl í apríl árið 2016. Prince fannst látinn á heimili sínu við Paisley Park og leiddi rannsókn málsins í ljós að rangt lyf hafi verið í umbúðunum sem fundust heima hjá popparanum. Saksóknari segir að ekki hafi tekist að skera úr um það hvaðan lyfin komu og að ekki hafi heldur fundist nein sönnunargögn í málinu sem bentu til þess saknæm háttsemi hafi leitt til þess að vitlaus lyf hafi verið í umbúðunum.

Rannsókn á málinu hefur farið fram undanfarin tvö ár. Sönnunargögn málsins benda til þess að tónlistarmaðurinn hafi talið að hann hafi verið að taka lyfið Vicodin og að hann hafi að öllum líkindum ekki haft hugmynd um að hann væri að taka lyf sem gætu dregið hann til dauða. Saksóknarinn segir einnig að allt bendi til þess að lyfin hafi ekki verið ávísuð af lækni.




Tengdar fréttir

Systkini Prince erfa auðævi hans

Ein alsystir og fimm hálfsystkini bandaríska söngvarans Prince koma til með að erfa auðævi hans sem eru talin nema allt að 200 milljónum Bandaríkjadollara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×