Þingmenn á kúbverska þinginu hófu í gær umræður um hver taki við af Raúl Castro sem forseti kommúnistaríkisins. Castro, sem tók við af bróður sínum Fidel árið 2006, mun stíga til hliðar og er búist við því að Miguel Díaz-Canel, fyrsti varaforseti Kúbu, taki við leiðtogasætinu.
Þá verður einnig skipað í 31 meðlims ríkisráð Kúbu. Ráðið er í raun valdameira en þingið þar sem þingið kemur bara saman tvisvar á ári. Forseti ríkisráðsins er svo sömuleiðis forseti ríkisins.
Castro-fjölskyldan hefur verið við völd á Kúbu frá árinu 1959. Með valdaskiptunum lýkur því nærri sextíu ára valdaskeiði hennar að mestu. Castro ætlar þó að halda áfram sem aðalritari Kommúnistaflokksins til 2021 og mun þannig hafa talsverð áhrif á gang mála og jafnvel hafa lokaorðið þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum.
Sjá einnig: Þjóðþing Kúbu velur arftaka Castros
Hinn 57 ára gamli Díaz-Canel hefur setið við hlið Castros undanfarin fimm ár og telja skýrendur hann langlíklegastan. Hins vegar er ekki útilokað að Bruno Rodríguez utanríkisráðherra og Mercedes López, aðalritari Kommúnistaflokks Havana, geri tilkall til stólsins.
Samkvæmt BBC er ólíklegt að nýr forseti breyti kúbversku samfélagi í náinni framtíð í ljósi áframhaldandi áhrifa Castros. Búist er við því að þær breytingar sem verða, verði gerðar hægt.
