Erlent

Demantahnöttur talinn brot úr horfinni reikistjörnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Brot úr loftsteininum í Súdan.
Brot úr loftsteininum í Súdan. SETI/P. Jenniskens/M. Shaddad
Hópur stjörnufræðinga telur að loftsteinn sem sprakk í lofthjúpi jarðar fyrir tíu árum hafi verið brot úr reikistjörnu sem myndaðist og tortímdist í árdaga sólkerfisins okkar. Demantar sem fundust í brotum loftsteinsins hafi aðeins getað myndast innan í reikistjörnu á stærð við Merkúríus eða Mars.

Smástirnið 2008 TC3 sprakk þegar féll inn í lofthjúp jarðar sem loftsteinn árið 2008. Vísindamenn fundu demanta í brotum loftsteinsins sem féllu yfir austanverðri Saharaeyðimörkinni í Súdan, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í grein sem birtist í vísindaritinu Nature Communications færir hópur vísindamanna fyrir því rök að nægilegur þrýstingur til þess að demantar geti myndast hafi aðeins geta verið til staðar innan í reikistjörnu af þessari stærð.

Óreiða einkenndi sólkerfið okkar fyrir milljörðum ára og hnetti og hnullungar af ýmsum stærðum og gerðum mynduðust þá úr ryk- og gasskífunni sem var efniviður þess. Líklegt er að loftsteinninn með demantana sem skalla á jörðinni hafi verið hluti af einum þessara heima sem urðu til í árdaga sólkerfisins.

Niðurstöður vísindamannanna nú eru sagðar fyrstu sennilegu vísbendingarnar um slíkan hnött sem hafi orðið til og síðan horfið. Þær þykja jafnframt renna stoðum undir kenningar um að reikistjörnurnar átta sem við þekkjum í dag hafi orðið til úr leifum fjölda annarra frumreikistjarna frá þessum róstusömu tímum í sögu sólkerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×