Körfubolti

„Bóndinn frá Íslandi“ er sagður áhugaverðasti leikmaðurinn í nýliðavalinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason gæti spilað í NBA-deildinni næsta vetur.
Tryggvi Snær Hlinason gæti spilað í NBA-deildinni næsta vetur. Vísir
Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta, gaf það út í gær að hann ætlar að gefa kost á sér í nýliðaval NBA-deildarinnar í sumar. Tryggvi hefur náð ótrúlega langt á skömmum tíma en aðeins eru fimm ár síðan að þessi rólegi risi úr Bárðardalnum byrjaði að æfa körfubolta.

Hann sló í gegn með U20 ára landsliðinu á EM síðasta sumar og var svo í leikmannahóp A-landsliðsins á EM í Finnlandi í fyrra. Eftir aðeins eina leiktíð í Domino´s-deildinni var hann fenginn til Valencia sem er eitt besta lið Evrópu.

Fjallað er um Tryggva á heimasíðu götublaðsins New York Post undir fyrirsögninni: „Bóndinn frá Íslandi er áhugaverðasti leikmaðurinn í nýliðavalinu.“

Þar er byrjað á því að segja að Tryggvi hafi stundum verið fastur heima hjá sér svo vikum skipti þar sem snjórinn var svo mikill og þykkur og í rauninni hafi hann ekkert annað þurft að fara.

Sagt er að ellefu af 917 íbúum Þingeyjarsveitar hafi búið á bóndabænum hans Tryggva þar sem að hann ók um á traktor, sló grasið og rak kindur á fjöll. Nú er þesi tvítugi piltur að undirbúa sig fyrir lífið í NBA-deildinni.

Tryggvi var frábær á EM U20 í fyrra þar sem að hann skoraði 16 stig og tók tólf fráköst að meðaltali í leik en íslenska liðið endaði í áttunda sæti A-deildarinnar.

Ef Tryggvi stendur við það að gefa kost á sér en hættir ekki við er búist við því að hann verði valinn í annarri umferð og verði annar Íslendingurinn á eftir Pétri Guðmundssyni til að spila í NBA-deildinni.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×