Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður krafðist þess að Arnfríður viki sæti sem dómari vegna vanhæfis. Hún var á meðal þeirra fjögurra sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra skipaði í Landsrétt þvert á tillögur hæfisnefndar.
Það var síðan þann 22. febrúar síðastliðinn sem úrskurður Landsréttar var kveðinn upp í málinu og niðurstaða sú að Arnfríði bæri ekki að víkja sæti. Það var Arnfríður sjálf, auk tveggja dómara; Jóhannesar Sigurðssonar og Þorgeirs Inga Njálssonar,sem kvað upp úrskurðinn.

Eftir niðurstöðu Landsréttar sótti Vilhjálmur um áfrýjunarleyfi vegna dómsmálsins til Hæstaréttar.
Að því er fram kemur í frétt RÚV hefur Jón H. B. Snorrason, saksóknari í máli skjólstæðings Vilhjálms, sent Hæstarétti umsögn þar sem fram kemur að ríkissaksóknari sé þeirrar skoðunar að „mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um það álitaefni sem ákærði fjallar um til rökstuðnings kröfu sinni um ómerkingu dóms Landsréttar, og að rök standi því til að að heimila ákærða að áfrýja dómi Landsréttar í málinu,“ segir Jón um það hvort Hæstiréttur veiti áfrýjunarleyfið og taki afstöðu um skipan Arnfríðar.
Skjólstæðingur Vilhjálms var dæmdur í sautján mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot og brot á reynslulausn.