Erlent

Biðjast afsökunar á að hafa sigað löggunni á svarta viðskiptavini

Kjartan Kjartansson skrifar
Starbucks hefur sætt gagnrýni fyrir að mismuna viðskiptavinum eftir kynþætti í kjölfar uppákomunnar.
Starbucks hefur sætt gagnrýni fyrir að mismuna viðskiptavinum eftir kynþætti í kjölfar uppákomunnar. Vísir/AFP
Forstjóri kaffihúsakeðjunnar Starbucks hefur neyðst til að biðja tvo svarta viðskiptavini afsökunar á því að starfsmenn kaffihúss í Fíladelfíu hringdu á lögregluna til að láta vísa þeim út þegar þeir biðu eftir vini sínum.

Snjallsímamyndband af uppákomunni fór sem eldur í sinu um samfélagsmiðla og fjölmiðla á fimmtudag. Mennirnir tveir sátu á kaffihúsi Starbucks og höfðu ekki pantað sér neitt því þeir voru enn að bíða eftir þriðja félaga sínum.

Sex lögreglumenn sem starfsmenn höfðu kallað til báðu mennina tvo um að yfirgefa staðinn. Þegar vinur þeirra mætti á staðinn og reyndi að útskýra málið sögðu lögreglumennirnir honum að þeir hefðu óhlýðnast fyrirmælum og yrðu handteknir fyrir að vera á staðnum í leyfisleysi.

Mönnunum tveimur var sleppt úr haldi lögreglu á föstudag. Þá höfðu þeir verið í haldi í nærri því níu klukkustundir að sögn lögmanns þeirra. Þeir voru ekki ákærðir, að sögn Washington Post.

Ámælisverð niðurstaða

Starbucks var í kjölfarið sakað um að mismuna viðskiptasínum eftir kynþætti. Aldrei hefði verið hringt á lögreglu ef mennirnir hefðu verið hvítir.

Kevin Johnson, forstjóri Starbucks, bað mennina tvo afsökunar í gær. Í yfirlýsingu til viðskiptavina og starfsmanna sagði hann að „niðurdrepandi“ uppákoma hefði átt sér stað á kaffihúsinu í Fíladelfíu sem hefði endað á „ámælisverðan hátt“.

Sagði hann að Starbucks myndi rannsaka uppákomuna og gera þær breytingar sem til þarf til að koma í veg fyrir að hún endurtaki sig.

„Verslunarstjórinn okkar ætlaðist aldrei til þess að mennirnir yrðu handteknir og þetta hefði aldrei átt að stigmagnast eins og það gerðist,“ sagði Johnson en lögreglan í Fíladelfíu hefur einnig sætt gagnrýni fyrir handtöku mannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×