Skoðun

Eftirlitsúr

María Bjarnadóttir skrifar
Fréttir af umfangsmikilli söfnun og sölu persónuupplýsinga í gegnum samfélagsmiðla hafa veitt persónuvernd löngu tímabæra og verðskuldaða athygli almennings. Það verður forvitnilegt að sjá hvort þetta muni hafa áhrif á hvernig fólk deilir persónulegum upplýsingum. Það gerist nefnilega ekki bara í gegnum samfélagsmiðla.

Hin forna speki Sókratesar „þekktu sjálfan þig“ hefur til dæmis öðlast nýtt inntak með stafrænum æfingaúrum og nær núna líka til „þekktu skrefafjölda þinn“, „þekktu daglegt kaloríumagn þitt“ og „þekktu meðalhraða þinn“. Sérstaklega á þetta við um þau sem hafa skipt fjallgöngum út fyrir hlaup, sem var skipt úr fyrir sjósund, sem var skipt úr fyrir racer-hjólreiðar og svo sameinað í þríþrautarkeppnum, áður en gönguskíðin tóku við síðasta vetur. Það þarf jú að fylgjast með þróun þols og úthalds.

Þessum upplýsingum má auðveldlega breyta í peninga, eða andlag eftirlits, allt eftir því hvernig litið er á. Tryggingafélög í Englandi bjóða nú ódýrari tryggingar fyrir viðskiptamenn sem sýna fram á nægilegan skrefafjölda og svefn með því að veita fyrirtækinu aðgang að upplýsingunum um háttsemi sína allan sólarhringinn. Kannski er það kostaboð.

Upplýsingarnar nýtast ekki bara fyrirtækjum. Þær geta verið öflug sönnunargögn í sakamálum, eins og gerðist í Þýskalandi í fyrra. Púlsmælir í æfingarúri manns sem sakfelldur var fyrir morð sýndi að hann hefði verið að erfiða, til dæmis við að draga lík upp tröppur, þegar hann sagðist hafa verið sofandi. Æfingaúrið þótti áreiðanlegri vitnisburður en notandi þess.

Það vilja fleiri þekkja sjálfan þig en þið Sókrates.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×