Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti í gær á hitafundi að víkja Borghildi Sturludóttur og Pétri Óskarssyni úr nefndum og ráðum sem þau hafa setið í fyrir hönd Bjartrar framtíðar. Forseti bæjarstjórnar, Guðlaug Kristjánsdóttir, lagði þetta til á bæjarstjórnarfundi í gær.
Guðlaug og Einar Birkir Einarsson bæjarfulltrúi sögðu sig nýlega úr Bjartri framtíð. Þau hafa starfað í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Eftir úrsögn þeirra hefur legið í loftinu að fulltrúar Bjartrar framtíðar yrðu teknir úr nefndum og ráðum en Borghildur Sturludóttir, sem setið hefur í skipulags- og byggingarráði fyrir flokkinn, hefur gagnrýnt hvernig meirihlutinn hefur staðið að ákvarðanatöku um byggingu knatthúsa.
Sjá einnig: Segja sig úr Bjartri framtíð vegna samstarfsörðugleika
Tillögu Guðlaugar var harðlega mótmælt á fundinum af Gunnari Axel Axelssyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar. Urðu umræður um málið svo heitar að gera þurfti hlé á fundi og vísa gestum út.
Í frétt Fjarðarfrétta af fundinum segir að umræður hafi verið svo háværar að ómur af þeim hafi borist út á götu. Svo fór að lokum að samþykkt var að víkja Borghildi og Pétri úr nefndum og ráðum.
Afgreiðslan hefur þegar verið kærð til ráðuneytisins herma heimildir Fréttablaðsins.
Innlent
Ráku menn BF úr öllum ráðum
Tengdar fréttir
Meirihlutinn hangir á bláþræði vegna vafa um kjörgengi Einars
Fyrrverandi bæjarfulltrúar í Bjartri framtíð í Hafnarfirði og fulltrúar flokksins í nefndum og ráðum bæjarins elda nú grátt silfur. Annar bæjarfulltrúanna býr í Kópavogi en hefur skráð lögheimili hjá ættingjum í Hafnarfirði.
Segja sig úr Bjartri framtíð vegna samstarfsörðugleika
"Það var okkar mat á þessum tímapunkti að samstarfið væri ekki eins og best væri á kosið og það væri rétt að segja sig frá Bjartri framtíð,“ segir Einar Birkir.