Skoðun

Hlustum á orð Friðriks

Benedikt Bóas skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson lét nokkuð áhugaverð orð falla í þættinum Akraborginni á þriðjudag. Friðrik hefur þjálfað körfuboltalið í næstum 100 ár þrátt fyrir að vera aðeins 49 ára. Hann hefur trúlega einhverja mestu íþróttaþjálfarareynslu á Íslandi. Hann var líka í átta ár hjá KKÍ sem framkvæmdastjóri og þekkir körfuboltaíþróttina og íþróttastarf betur en flestir.

Þegar talið barst að foreldrum sagði Friðrik að það vantaði meiri virðingu fyrir þjálfarastöðunni. „Foreldrum finnst ekkert tiltökumál að vaða inn á æfingar og horfa á í tíma og ótíma. Jafnvel skipta sér af. Ég hef stundum spurt foreldra hvort þeir vildu að ég kæmi inn á þeirra vinnustað í tíma og ótíma og færi að skipta mér af. Svarið er alltaf skýrt nei.“

Þarna er ég sammála Friðriki. Foreldrar eru margir óþolandi þegar kemur að íþróttaiðkun barna þeirra. Mæta á æfingar og tala hátt, jafnvel þegar börnin eiga að hafa hljóð. Tala í símann og hafa jafnvel skoðanir á því sem menntaður þjálfarinn er að gera og segja. Sumir meira að segja haga sér eins og fávitar á mótum.

Þetta gildir bæði um mömmur og pabba. Virðingin fyrir þjálfarastarfinu er lítil sem engin. Hún virðist vera svipuð og hvernig ríkið metur ljósmæður.

Æfingar hjá börnum eru ekki barnapössun svo að foreldrar fái klukkutíma á Facebook í friði. Það er verið að kenna þeim fullt af góðum hlutum sem þau taka með sér út í lífið seinna meir.

Ef þú, lesandi góður, átt barn í íþróttum – hvaða íþrótt sem er, ekki vera plebbi og fáviti. Það er hallærislegt. Berðu virðingu fyrir þeim sem nenna að þjálfa börnin þín.

Hlustum á orð Friðriks.

Virðing kostar nefnilega ekkert.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×