Innlent

Endurgreiði 360 þúsund vegna áfanga í ensku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á skólabekk. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Á skólabekk. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/eyþór
Karlmanni hefur verið gert að endurgreiða rúmlega 360 þúsund krónur þar sem hann þáði atvinnuleysisbætur samhliða fjarnámi í einum áfanga í framhaldsskóla. Að auki verður hann að greiða 15 prósenta álag á upphæðina. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í velferðarmálum (ÚRV).

Maðurinn lauk háskólanámi í fyrravor og fékk sumarstarf. Að því loknu sótti hann um atvinnuleysisbætur og fékk. Þá skráði hann sig fjarnám í ensku við framhaldsskóla síðustu haustönn.

Í nóvember barst honum bréf frá Vinnumálastofnun þar sem fram kom að til stæði að fella niður bótarétt hans og krefja hann um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Ástæðan var umræddur enskuáfangi.

Maðurinn skaut niðurstöðunni til ÚRV og taldi námið það lítið að það ætti ekki að hafa áhrif á bótaréttinn.

Nefndin benti á móti á að í lögum sé heimilt að taka áfanga í háskóla, allt að 10 ETCS einingum, án þess að bótaréttur skerðist. Slíka heimild sé hins vegar ekki að finna fyrir framhaldsskóla. Þrátt fyrir að um aðeins einn áfanga hafi verið að ræða stundi hann nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi verið rétt að fella bæturnar niður og að krefja hann um endurgreiðslu á ofgreiddum bótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×