Lífið

Ari fékk blaðamenn til að rísa úr sætum á blaðamannafundi

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Ari Ólafsson söng sig inn í hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar í Söngvakeppni sjónvarpsins.
Ari Ólafsson söng sig inn í hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar í Söngvakeppni sjónvarpsins. RÚV
Ari Ólafsson sagði að honum hefði liðið eins og hann væri frekar lítill á sviðinu í Lissabon eftir fyrstu æfingu íslenska hópsins. Ari og íslenski hópurinn sátu fyrir svörum á blaðamannafundi eftir fyrstu æfingu þeirra í vikunni. Ari greinir einnig frá því í viðtalinu að hann muni flytja til London og hefja nám við Royal Academy for Music í haust. Hann ætlar að vera þar í fjögur ár og ná sér í bakkalárgráðu í söng.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á íslenska atriðinu. Hópurinn hefur hætt við hljómsveitarhugmyndina og nú standa bakraddasöngvararnir í hálfhring fyrir aftan Ara. 

Ari er einnig spurður út í fötin sem hann klæðist á sviðinu en það er Þórunn Clausen, höfundur lagsins, sem var meira inn í því ferli. Ýr Þrastardóttir hannaði fötin og mynstrið sem er á þeim. Þórunn segir að merkingin á bak við það sé að undir niðri berum við öll ýmsar tilfinningar sem ekki sjást á yfirborðinu. Rauði liturinn minni svo á íslensku náttúruna og á þá við jöklana og eldinn sem kraumar undir niðri.

Ari var beðinn um að svara gagnrýni sem hann hefur fengið fyrir að sýna tilfinningar á úrslitakvöldinu hér heima og tárin sem þeim fylgdu. Ari sagði að þú getir ekki farið í gegnum lífið án þess að fá á þig gagnrýni en svona sé hann bara og það sé ekkert hægt að gera í því.

Ari var spurður út í öndunaræfingar sem hann og Þórunn gera alltaf áður en þau stíga á svið og fékk hann blaðamennina til þess að rísa úr sætum og taka þátt í þessari æfingu með þeim.

Viðtalið við Ara og íslenska hópinn má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.