Erlent

Vonast til að leysa leyndardóm Mars á næstu mánuðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Teiknuð mynd af Trace gas Orbiter á braut yfir Mars.
Teiknuð mynd af Trace gas Orbiter á braut yfir Mars. Vísir/ESA
Vísindamenn vonast til þess að geta leyst einn af stærri leyndardómum Mars á næstu mánuðum. Gervihnöttur sem er nú á braut um rauðu plánetuna er sérhannaður til þess að komast að því hvort lífverur myndi metangas á Mars. Um er að ræða sameiginlegt verkefni Evrópsku geimvísindastofnunarinnar (ESA) og Geimvísindastofnunar Rússlands (Roscosmos).

Metan hefur fundist á Mars en ekki liggur fyrir hvernig það myndast. Fyrst fannst gasið á Mars árið 2004 með Mars Express geimfarinu. Tíu árum seinna greindi Curiosity einnig metan á Mars. Metan ætti að eyðast á yfirborði Mars vegna mikillar útfjólubláar geislunar. Því telja vísindamenn að það sé sífellt að myndast á plánetunni.

Hér á jörðinni verður metan að mestu til vegna örvera en gasið getur einnig myndast neðanjarðar. 

Gervihnötturinn Trace Gas Orbiter hefur verið á sporbraut um Mars í rúmt ár. Þegar TGO kom til mars varpaði gervihnötturinn Schiaparelli á yfirborð plánetunnar. Schiaparelli fórst þó við lendinguna.

Kveikt var á skynjurum TGO í síðustu viku. Nú er gervihnötturinn í um 400 kílómetra hæð og birti ESA fyrstu myndina sem tekin var úr gervihnettinum í fyrradag.

Með því að greina andrúmsloft Mars má sjá samsetningu þess. Finnist mikið af lífrænum eindum í metani Mars væri það til marks um að örverur myndi gasið eða hafi á einhverjum tímapunkti gert það.

Samkvæmt umfjöllun Guardian búast vísindamenn ESA við því að það muni taka um ár að grandskoða þá helstu staði Mars þar sem finna má metan. Hins vegar vonast þeir til þess að svara spurningunni um uppruna metansins á næstu tveimur mánuðum.



Ef í ljós kemur að örverur myndi ekki metanið er það þó til marks um að finna megi vatn í fljótandi formi undir yfirborði plánetunnar.

„Vitandi það að vatna er mikilvægt lífi, eins og við þekkjum það, væru það góðar fréttir varðandi vonir okkar á að finna lífverur á Mars,“ segir vísindamaðurinn Mark McCaughrean.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×