Erlent

Höfðu upp á Golden State-morðingjanum með hjálp ættfræðivefsíðna

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregluborði utan um hús grunaða morðingjans nærri Sacramento.
Lögregluborði utan um hús grunaða morðingjans nærri Sacramento. Vísir/AFP
Saksóknarar í Kaliforníu segja að rannsakendur hafi komist á spor alræmds fjöldamorðingja meðal annars í gegnum ættfræðivefsíður. Tekist hafi að þrengja hringinn með því að bera lífsýni frá morðunum saman við upplýsingar sem hafði verið hlaðið upp á vefsíðurnar.

Joseph DeAngelo, 72 ára gamall karlmaður, var handtekinn á þriðjudag en hann er grunaður um að bera ábyrgð á fjölda morða og nauðgana á 8. og 9. áratugnum. Fjöldamorðinginn hlaut meðal annars viðurnefnið Golden State-morðinginn vegna þess að hann framdi glæpi sína í Kaliforníu.

Steve Grippi, saksóknari í Sacramento-sýslu, segir að rannsakendur hafi borið saman DNA-sýni sem tengdust glæpunum við upplýsingar sem fólk í leit að foreldrum og skyldfólki hafði hlaðið upp á ættfræðisíður á netinu.

Stjórnendur vefsíðu sem er ætlað að bera kennsl á óþekkt fórnarlömb morða segja að mögulega hafi DNA-upplýsingar sem settar hafi verið inn á slíka vefsíðu komið lögreglu á spor morðingjans, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Með þessum hætti var hægt að þrengja hringinn þannig að aðeins nokkrir einstaklingar komu til greina. DeAngelo var handtekinn þegar í ljós kom að lífsýni tengdu hann við glæpina.

DeAngelo hefur verið ákærður vegna átta morða. Engu að síður er talið er að hann hafi í heildina myrt tólf manns, framið 51 nauðgun og 120 innbrot frá 1976 til 1986.


Tengdar fréttir

Raðmorðingi handsamaður

Lögregluyfirvöld í Sacramento í Kaliforníu tilkynntu í gær að 72 ára gamall maður, Joseph James DeAngelo, hefði verið handtekinn, grunaður um að vera hinn alræmdi Golden State-morðingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×