Skoðun

Róbótaréttindi

María Bjarnadóttir skrifar
Nú stefnir allt í að vísindaskáldskapur síðustu áratuga verði raunveruleiki á næstu áratugum. Meginþema í þessari framtíðarsýn er aukin sjálfvirkni tækja sem öðlast nánast mennskan skilning með gervigreind, en verða jafnframt skilvirkari en manneskjur því algrím gera færri mistök en mannsheilinn.

Róbótarnir eru mismunandi í útliti. Sumum svipar til RoboCop, aðrir eru fartölva. Mikill fjölbreytileiki er í róbótatísku, bæði hvað varðar ytra og innra byrði. Þeir eru auðvitað margir komnir til starfa á vinnumarkaði nú þegar, þó þeir séu mislangt á veg komnir í sjálfvirkninni.

Með þessari þróun koma upp fleiri álitaefni en bara hvernig atvinnumarkaðurinn muni þróast. Evrópusambandið vinnur nú að stefnumótun þar sem leitast er við að svara spurningum um hugverkaréttindi róbóta, ábyrgð á skaðaverkum þeirra og hvernig megi tryggja öryggi í notkun þeirra. Hvar sleppir réttindum mannfólksins og hvar hefjast réttindi róbótsins?

Þetta er nátengt álitaefnum um notkun sjálfvirkni í hernaði. Ef það er enginn gikkur, var skotinu þá hleypt af?

Nýlega skrifaði heimspekingurinn Slavoj Zizek grein þar sem hann velti fyrir sér réttarstöðu kynlífsróbóta og þörf mannfólksins til þess að skilgreina hvort og hvernig mannréttinda róbótar eigi að njóta. Hann heldur að siðferði og mannréttindi gætu úrelst samhliða aukinni róbótavæðingu samfélagsins. Þannig feli gervigreind hugsanlega í sér aðra og hærri vitund sem bjóði upp á þróaðri valkosti en „gott“ og „vont“ og það sé ekki á valdi mannfólksins að meta hvort sé betra fyrir þá.

Megi mátturinn vera með okkur öllum.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×