Innlent

Reykjavíkurborg skilar fimm milljarða króna afgangi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnir ársreikninginn í dag.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnir ársreikninginn í dag. mynd/reykjavíkurborg
Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 sem kynntur var á blaðamannafundi fyrr í dag skilaði A-hluti borgarinnar, sem heldur utan um eiginlegan rekstur, fimm milljarða króna afgangi. Samstæða borgarinnar, en inni í henni eru B-hluta fyrirtæki líkt og Orkuveita Reykjavíkur og Félagsbústaðir, var rekin með 28 milljarða króna hagnaði. Er afkoman mun betri en gert hafði verið ráð fyrir.

Í tilkynningu frá borginni segir að skuldir samstæðunnar, A-og B-hluta, hafi farið lækkandi seinustu ár; hafi farið úr 255 milljörðum árið 2011 í 193 milljarða árið 2017. Þannig sé skuldahlutfall samstæðunnar án skulda Orkuveitu Reykjavíkur 83 prósent sem sé innan þeirra viðmiða sem sett eru um skuldir sveitarfélaga.

Haft er eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, að ársreikningurinn sýni að rekstur borgarinnar gangi mjög vel.

„Við erum að skila afgangi af samstæðu og borgarsjóði sem á sér varla fordæmi. Á sama tíma höfum við verið í gríðarlegum fjárfestingum í öllum hverfum borgarinnar, lækkað fasteignagjöld og aðrar gjaldskrár, aukið framlög til mikilvægra málaflokka til muna eins og til velferðar og til leik- og grunnskóla. Metár í uppbyggingu og lóðaúthlutunum hafa m.a. gert okkur þetta kleift,“ segir Dagur.

Samkvæmt greinargerð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem fylgir ársreikningnum munar miklu um sölu lóða og fasteigna sem voru talsvert umfram áætlanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×