Innlent

Ísland hlýtur viðurkenningu fyrir brautryðjandastarf í þágu jafnréttis kynjanna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington, tekur við viðurkenningunni fyrir Íslands hönd
Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington, tekur við viðurkenningunni fyrir Íslands hönd Mynd/Utanríkisráðuneytið
Tilkynnt var í Washington í gærkvöldi að Ísland hlyti sérstaka viðurkenningu fyrir brautryðjandastarf í þágu jafnréttis kynjanna, undir yfirskriftinni Framtíð karlmennskunnar eða Future of Manhood. Það eru kanadísku samtökin Promundo sem veita viðurkenninguna en Geir H. Haarde sendiherra Íslands í Bandaríkjunum veitti viðurkenningunni mótttöku fyrir Íslands hönd. 

Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu var í athöfninni einnig tilkynnt um viðurkenningar til átta einstaklinga, baráttufólks fyrir jafnrétti kynjanna. Þeirra á meðal eru forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, kvikmyndagerðarkonan Jennifer Siebel Newsom, og framkvæmdastýra UN Women Phumzile Mlambo-Ngcuka.

Margvíslegur hvati í íslenskri lagasetningu

Stjórnarformaður Promundo, Gary Barker, sagði við verðlaunaafhendinguna að fyrir tilstuðlan #MeToo byltingarinnar og annarra aðgerða kvenna hefði hulu verið svipt af ofbeldi og áreiti karla í garð kvenna og þolinmæði væri þrotin á heimsvísu. Jafnrétti kynjanna væri á dagskrá stjórnvalda um víða veröld. Þrátt fyrir það er enn langt í land ef marka má spár Alþjóðahagþróunarstofnunarinnar um að búast megi við að hundrað ár taki að ná raunverulegu jafnrétti kynjanna. Sagði hann viðurkenningarnar veittar fyrir frumkvæði og framlag í þessa veru. 

„Í rökstuðningi fyrir viðurkenningu til Íslands kom fram að margvíslegur hvati sé í íslenskri lagasetningu, sem feli í sér skyldur og jafnframt tækifæri fyrir karla til þess að verða ábyrgir þátttakendur í lífi barna sinna. Hér er vísað til þess að allt að 90% feðra taka fæðingarorlof á Íslandi. Ennfremur kom fram að til fyrirmyndar sé hvernig Ísland hafi eflt umræðu meðal karla um jafnréttismál en hinar svokölluðu Rakarastofur hafa opnað augu karla og náð til karla á alþjóðavettvangi, veki þá til vitundar um mikilvægi jafnréttis og dulda fordóma í garð kvenna,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×