Erlent

Íranir hafa engan áhuga á að breyta kjarnorkusamningnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Rouhani dregur í efa lögmæti þess að Bandaríkjamenn og Frakkar ákveði breytingar á samningi sem sex ríki auk ESB eiga aðild að.
Rouhani dregur í efa lögmæti þess að Bandaríkjamenn og Frakkar ákveði breytingar á samningi sem sex ríki auk ESB eiga aðild að. Vísir/AFP
Hassan Rouhani, forseti Írans, segir að vesturlönd hafi engan rétt á að krukka í samkomulagi sem gert var við Írani um kjarnorkuframleiðslu þeirra árið 2015. Donald Trump Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýstu yfir vilja til að semja upp á nýtt á fundi þeirra í Washington-borg í gær.

Trump hefur fundið tímamótasamkomulaginu allt til foráttu frá því að hann tók við embætti og hefur viljað rifta því.  Hann hefur gefið Bandaríkjaþingi og Evrópuþjóðum frest til 12. maí til að bæta úr því sem hann kallar „hræðilega galla“ á samkomulaginu.

Tilgangurinn með heimsókn Macron til Bandaríkjanna nú er meðal annars sá að reyna að tala Trump ofan af því. Saman tilkynntu þeir í gær að þeir ynnu að nýjum samningi sem myndi útvíkka skilyrði upphaflega samkomulagsins. Í því var kveðið á um að Íranir hættu kjarnorkuframleiðslu sinni gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn landinu.

Rouhani gefur hins vegar lítið fyrir það tal Trump og Macron. Þeir hafi engan rétt á að semja upp á nýtt. Þá staðhæfir hann að Trump sé ekki hæfur til að tjá sig um alþjóðasamninga af þessu tagi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Þú hefur engan bakgrunn í stjórnmálum. Þú hefur engan bakgrunn í lögfræði. Þú hefur engan bakgrunn í alþjóðlegum samningum,“ segir Rouhani.

Fimm fastaþjóðirnar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar, Rússar og Kínverjar auk Þjóðverja og Evrópusambandsins gerðu samkomulagið við Írani á sínum tíma eftir langar og strangar viðræður. Rouhani efast um lögmæti þess að Bandaríkjamenn og Frakkar geti ákveðið einir að breyta samkomulaginu nú.


Tengdar fréttir

Hvetja Trump til að rifta ekki kjarnorkusamkomulaginu

Trump hefur ítrekað hótað því að ef bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu lagi ekki „hræðilega galla“ í samkomulaginu fyrir 12. maí muni hann beita viðskiptaþvingunum gegn Íran aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×