Stjórnarflokkurinn Siumut er áfram stærsti flokkur Grænlands eftir þingkosningarnar sem fram fóru þar í landi í gær. Kosninganóttin var æsispennandi en úrslit voru ekki ljós fyrr en í morgunsárið.
Siumut, sem er jafnaðarmannaflokkur, fékk níu menn kjörna og næst stærsti flokkurinn varð vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit með átta fulltrúa.
Báðir flokkarnir mynda þegar ríkisstjórn í Grænlandi ásamt miðjuflokknum Partii Naleraq sem fékk fjóra menn kjörna.
Ríkisstjórn Kim Kielsen heldur velli en flokkarnir gengu ekki bundnir til kosninga og því ekki útilokað að stokkað verði upp í stjórninni.
Demókrataflokkurinn fékk sex menn kjörna, íhaldsflokkurinn Atassut fékk tvo, flokkur aðskilnaðarsinna og Samvinnuflokkurinn fengu einn mann kjörinn hvor.
