Tim Bergling, einnig þekktur undir listamannsnafninu Avicii, fæddist í Stokkhólmi árið 1989. Foreldrar hans eru Klas Bergling og Anki Lidén. Móðir hans er vinsæl leikkona og hefur átt farsælan feril í Svíþjóð. Hún hefur meðal annars leikið í þáttunum Wallander og fjölda kvikmynda í heimalandinu. Hann skilur einnig eftir sig systur, Lindu og tvo bræður, Anton og David.
Þó að Bergling hafi verið aðeins 28 ára þegar hann dó var hann búinn að vera í tónlistarbransanum í rúman áratug. Á sextánda aldursári byrjaði hann að gera sín eigin „remix“, eða endurhljóðblöndur, af lögum og fékk sinn helsta innblástur frá Daft Punk og Swedish House Mafia. Hann birti lögin á vefsíðu hollenska plötusnúðsins Laidback Luke undir nafninu Avicii. Nafnið Avicii vísar til avīci, lægsta stig helvítis í búddatrú.
Farsælt samband í tæpan áratug
Þetta leiddi til þess að Avicii fékk sinn fyrsta samning við plötuútgáfufyrirtækið Dejfitts Plays árið 2007 og kynntist umboðsmanni sínum, Arash Pournouri ári síðar.Samband þeirra Pournouri var einstaklega farsælt. Pournouri stefndi langt með Avicii og sagði sá síðarnefndi í viðtali að Pournouri ætlaði sér að gera hann að stærsta tónlistarmanni í heimi á tveimur árum. Bergling hélt uppteknum hætti og gaf út lög undir hinum ýmsu nöfnum, þar á meðal Avicii. Þessi aðferð virkaði vel og komst lagið Seek Bromance til dæmis í 13. sæti vinsældalistans í Bretlandi árið 2010.
Það sem meira er eignaðist hann aðdáendahóp í Bandaríkjunum á þessum tíma en danstónlist varð vinsælli og vinsælli upp úr aldamótum þar í landi.
Lagið sem kom honum á kortið
Árið 2011 reyndist örlagaár í lífi Tim „Avicii“ Bergling. Lagið Levels sló í gegn og það eru eflaust margir sem hugsa um það lag þegar þeir heyra minnst á Avicii. Grípandi taktur og hljóðbrot, sem fengið er að láni úr lagi Ettu James Somebody That I Used to Know, varð til þess að hann varð einn allra vinsælasti plötusnúður og tónlistarmaður danssenunnar.Lagið var meðal annars tilnefnt til Grammy verðlauna og hefur verið streymt um 250 milljón sinnum á Spotify.
Hann var rækilega kominn á kortið og spilaði á tónlistarhátíðum um allan heim sem og sínum eigin tónleikaferðalögum. Á komandi árum gaf Avicii út plöturnar True (2013) og Stories (2014) og hann framleiddi smelli í bílförmum.
Stærsti smellurinn hans, Wake me Up, kom út árið 2013. Lagið var umdeilt vegna þjóðlagabrags sem var yfir því en það kom ekki að sök því lagið fór beint á vinsældalista í Bretlandi og í Evrópu allri.
Tónlistarmenn flykktust að honum og hann vann meðal annars með Wyclef Jean, Robbie Williams, Madonnu, Ritu Ora.
Ekki allt sem sýnist á bak við tjöldin
Þessari gríðarlegu velgengni fylgdi mikið partýstand og mikil drykkja. Afleiðingarnar fyrir tónlistarmanninn urðu miklar.Hann varð háður áfengi og þróaði með sér brisbólgu vegna óhóflegrar áfengisdrykkju. Árið 2014 þurfti hann að láta fjarlægja úr sér botnlangann og gallblöðruna vegna þessa.
Öllum að óvörum tilkynnti hann árið 2016 að hann hygðist hætta öllu tónleikahaldi vegna heilsubrests undanfarinna ára. Hann skildi einnig við umboðsmanninn sinn, Arash Pournouri, eftir átta ára samstarf.
Heimildarmyndin Avicii: True Stories varpar frekari ljósi á aðstæður hans bakvið tjöldin. Hann var feiminn, innhverfur ungur maður sem elskaði það sem hann gerði en átti erfitt með að halda í við lífsstílinn sem fylgdi starfinu.
Í einu af síðasta viðtali sínu, við tímaritið Rolling Stones, talar hann um að hafa þurft að hætta til að átta sig á lífi sínu og finna hamingjuna á ný. Hann sagðist sjá eftir því að hafa ekki staðið upp fyrir sjálfum sér, stoppað fyrr og hugsað betur um sig.
Hann sagði auðvelt að verða háður partýstandinu. Lífið á tónleikaferðalögum hafi verið einmanalegt og hann þjáðist af miklum kvíða og sviðsskrekk.
Vinir og kunningjar hafa tjáð sig um dauða hans síðustu daga og fullyrða að hann hafi aldrei viljað vera frægur. Plötusnúðurinn Laidback Luke, sem hafði þekkt Avicii frá upphafi ferils hans, segir frá því þegar hann hitti hann síðast, árið 2015. „Það var ekki mikið eftir af Tim þegar ég hitti hann. Hann leit út eins og uppvakningur og hafði elst óeðlilega mikið. Þegar ég sá hann á tónleikum var eins og hann hefði ekki tengingu við lífið lengur.“
Vinir segja hann hafa leiðst út í áfengisdrykkju til að takast á við kvíða og sviðsskrekk og félagslífið í kringum starfið. Hann hafi alla tíð talað í hreinskilni um það hvað hann þoldi ekki að vera frægur og það hafi verið einstaklega erfitt fyrir hann andlega að vera mikið í sviðsljósinu.
Ný tónlist
Þrátt fyrir að hafa lagst í helgan stein aðeins 27 ára, hætti hann ekki að gera tónlist. EP platan Avīci (01) leit dagsins ljós á síðasta ári og var tilnefnd til verðlauna Billboard tónlistarverðlaununum. Í viðtalinu við Rolling Stones sagði hann markmiðið að gera sína bestu plötu á ferlinum en viðurkenndi þó að vera stressaður fyrir útgáfu hennar vegna þess hversu vel hinum plötunum gekk.„Stories gekk mjög vel en samt ekki eins vel og True og því er ég dálítið stressaður fyrir þessari plötu,“ sagði Avicii.
Síðan greint var frá láti tónlistarmannsins hafa kollegar og aðdáendur minnst hans á samfélagsmiðlum. Calvin Harris, Steve Aoki, David Guetta, Madonna og Nile Rogers hafa öll minnst hans síðustu daga.
Strax á föstudag voru playlistar tileinkaðir Avicii farnir að hrannast upp á Spotify og í Stokkhólmi um helgina kom fólk saman og minntist hans. Hans var einnig minnst á Coachella tónlistarhátíðinni og kirkjubjöllur hafa spilað lögin hans .
Þegar þetta er skrifað er dánarorsök tónlistarmannsins og plötusnúðsins ekki kunn. Lögregluyfirvöld í Oman, þar sem hann fannst látinn á hótelherbergi sínu hafa samt staðfest að dauðsfallið hafi ekki borið að með saknæmum hætti.
Fjölskylda Avicii hefur sent frá sér tilkynningu þar sem þau þakka stuðningin og falleg orð í garð hans. Þau þakka einnig fyrir allt sem fólk hefur gert síðustu daga í virðingavotti við hann.
Það virðist liggja fyrir, þegar líf Avicii er skoðað nánar, að heilsubrestir undanfarinna ára, vegna óhóflegrar drykkju, hljóta að hafa spilað hlutverk í ótímabæru dauðsfalli hans.
Ljóst er að tónlistarmaðurinn hefur haft gríðarleg áhrif um allan heim og áhrif hans á danstónlistarsenuna eru ótvíræð.
Síðasta myndin sem Avicii setti á Instagram.