Innlent

Prófessor telur rafrettur góða tóbaksvörn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Vinda þarf ofan af frumvarpi heilbrigðisráðherra um rafsígarettur að mati Halldóru Mogensen formanns velferðarnefndar Alþingis. Linda Bauld prófessor við Stirling háskóla í Bretlandi kom fyrir nefndina í morgun og ráðlagði nefndarfólki að grípa tækifærið og nýta rafrettur til tóbaksvarna.

Velferðarnefnd Alþingis fékk í dag til sín skoskan prófessor í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um frumvarp heilbrigðisráðherra um rafrettur. Prófessorinn lauk nýverið við rannsókn á sextíu þúsund breskum ungmennum þar sem kom fram að engin hætta sé á því að veip leiði ungt fólk út í reykingar síðar meir.

,,Við höfum ekki séð að ungt fólk sem notar rafrettur verði háð tóbaki í Bretlandi,“ segir Linda Bauld.  Linda segir að í raun séu tengsl milli aukinnar rafrettunotkunnar og þess að reykingar hafi dregist saman.

„Á síðustu árum höfum við séð að á meðan rafrettur hafa verið mjög vinsælar meðal ungmenna í Bretlandi hefur tíðni tíðni tóbaksreykinga dregist verulega saman. Jafnvel meira en þær gerðu áður,“ segir Linda.

Linda ráðleggur íslenskum stjórnvöldum að grípa tækifærið sem felist í rafrettum til að komast fyrir tóbaksreykingar og öll þau heilbrigðisvandamál sem þeim fylgja.

Í frumvarpi heilbrigðisráðherra um rafrettur er lagt til að sambærilegar reglur gildi um notkun rafsígarettna og um notkun reyktóbaks og einnig um markaðssetningu og aldursmörk. Halldóra Mogensen formaður velferðarnefndar segir nefndina sammála í stórum dráttum um að vinda þurfi ofan af frumvarpinu eins og það lítur núna út.

„Það hafa verið hræðsluviðbrögð við því að ungt fólk hafi verið að ánetjast veipinu og fari mögulega í framhaldinu út í tóbaksreykingar. Meðan það gleymist að sjá veipið sem stórkostlega lausn fyrir reykingafólk, þ.e. það sé skaðaminnkun fólgin í að fara úr reykingum í veipið sem virðist vera mun skaðminna en tóbaksreykingar,“ segir Halldóra.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×