Innlent

Þurftu að bíða eftir viðbrögðum frá Landspítala

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
"Það kemur mér ofsalega á óvart hvað þær taka þetta bratt,“ segir Svandís um ákvörðun heimaþjónustuljósmæðra.
"Það kemur mér ofsalega á óvart hvað þær taka þetta bratt,“ segir Svandís um ákvörðun heimaþjónustuljósmæðra. Vísir/eyþórárnason
Síðdegis var greint frá því að 60 heimaþjónustuljósmæður ætli að leggja niður störf frá og með morgundeginum vegna þess að heilbrigðisráðuneytið hafi ekki undirritað samninga sem heimaþjónustuljósmæður gerðu við Sjúkratryggingar Íslands.

Ástæðan fyrir því að samningurinn er enn í ráðuneytinu er sá að álitamál komu upp sem varða Landspítalann. Ráðuneytið verður að fá viðbrögð frá sjúkrahúsunum til þess að geta lokið málinu. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við Vísi.

„Já, ég var búin að sjá þetta. Það kemur mér ofsalega á óvart hvað þær taka þetta bratt,“ segir Svandís þegar hún er innt eftir viðbrögðum við fyrirætlunum heimaþjónustuljósmæðra.

Sjá frétt Vísis um aðgerðir 60 heimaþjónustuljósmæðra hér.

„Drögin að samningi við þær eru til skoðunar í ráðuneytinu. Við erum að bíða eftir viðbrögðum frá Landspítalanum við tilteknum útfærsluþáttum þar. Ég fer yfir þetta með mínu fólki í ráðuneytinu í fyrramálið, það er ekkert annað að gera undir þessum kringumstæðum.“

Svandís segist ekki hafa fengið upplýsingar um ákvörðun heimaþjónustuljósmæðra með formlegum hætti. Þrjár ljósmæður hefðu greint henni frá fyrirætlunum sínum í gegnum samskiptamiðilinn Facebook.

„Ég kallaði eftir frekari skýringum núna í kvöld og þetta eru þær upplýsingar sem ég fæ úr ráðuneytinu að það hafi verið óskað eftir viðbrögðum frá Landspítalanum með bréfi og að viðbrögðin hefðu ekki borist,“ ítrekar Svandís.

Að sögn ljósmóður sem Vísir talaði við síðdegis koma aðgerðirnar verst niður á annars vegar nýbökuðum foreldrum og hins vegar meðgöngu-og sængurlegudeild.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×