Erlent

ETA biðst afsökunar og leysist upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tilkynning frá ETA birtist í tveimur baskneskum dagblöðum í morgun.
Tilkynning frá ETA birtist í tveimur baskneskum dagblöðum í morgun. Vísir/Getty
Búist er við því að ETA, aðskilnaðarhreyfing Baska, verði formlega leyst upp á allra næstu vikum.

Í tilkynningu sem hreyfingin sendi frá sér í morgun biðjast fulltrúar hennar afsökunar á öllum þeim kvölum sem ETA hefur valdið á síðustu áratugum. Hreyfingin vonast jafnframt til þess að aðstendur allra þeirra óbreyttu borgara sem látist hafa í aðgerðum ETA geti fyrirgefið þeim.

Talið er að á þeim 40 árum sem ETA hefur verið starfandi í Baskahéröðum Spánar og Frakklands hafi hreyfingin dregið rúmlega 800 manns til dauða og sært þúsundir annarra. Stjórnmálaskýrendur áætla að ETA muni formlega lýsa því yfir í byrjun næsta mánaðar að hreyfingin sé hætt störfum.

Spænsk stjórnvöld segja að þau hafi ráðið fullkomlega niðurlögum ETA og að hreyfingin hafi ekki náð að hrinda nokkru einasta hugðarefni sínu í varanlega framkvæmd.

„Við erum meðvituð um að á þessum löngu ófriðartímum höfum við valdið miklum þjáningum, þar með talið tjóni sem engar skýringar eru á,“ segir í yfirlýsingunni sem birtist í tveimur baskneskum dagblöðum í morgun.

„Við viljum votta þeim látnu virðingu okkar, öllum þeim sem særst hafa og öðrum fórnarlömbum aðgerða ETA. Við biðjumst innilegrar afsökunar.“

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að ETA sé reiðubúin að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að sár Baskahéraðanna geti gróið.

ETA hefur dregið mikið úr umfangi sínu á síðustu árum. Til að mynda tilkynnti hreyfingin að hún myndi ekki framkvæma fleiri árásir í september árið 2010 og lýsti yfir formlegu vopnahléi nokkrum mánuðum síðar. ETA afhenti svo frönsku lögreglunni þrjú og hálft tonn af vopnum, sprengiefnum og öðrum tækjabúnaði í apríl í fyrra.


Tengdar fréttir

ETA segjast hætt öllu vopnaskaki

ETA, aðskilnaðarhreyfing Baska, batt í gær enda á vopnaða sjálfstæðisbaráttu sem staðið hefur í 43 ár og kostað 829 mannslíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×