Skoðun

1. maí

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Á morgun er 1. maí. Þá fara margir í göngur – og nánast í réttir líka. 1. maí göngur hafa löngum verið sundrungin ein, fjöldi fólks hefur talið að það ætti ekki erindi í göngu með næsta manni, næsti maður hefur hugsað eitthvað svipað og hópur fólks verið á sama máli – og haldið sig sér. Þetta hafa verið dreifðar hjarðir á stangli – sem hafa sjálfar séð um að draga sig í dilka.

Nú má búast við enn einni göngunni. Víðfrægur peningaburðarmaður auðvaldsins hefur nefnilega keypt sér köflótta skyrtu, því þannig heldur hann að verkamenn séu klæddir, og hyggst hann ganga í átt að hinu sósíalíska framtíðarlandi hvar fyrirtækin sjálf þurfa ekki að greiða laun heldur geta allir fengið eins og þeir vilja úr Ábyrgðarsjóði launa. Rétt á milli þess að fyrirtækin stofna sig upp á nýtt með nýjar kennitölur og nýjar ambisjónir; dýrðin ein.

Síðustu ár hefur íslenskur verkalýður ekki borið gæfu til þess að ráðast gegn óvinum sínum: Kennitöluflökkurum, glæpamönnum sem falsa reikninga til þess að leika á virðisaukaskattinn, skítmennum sem hlaupa frá fyrirtækjum sem þeir viljandi keyra í þrot, gangsterum sem borga helst enga skatta. Nei, talsmenn verkalýðsins hafa verið uppteknir af því að djöflast í bændum og tilbiðja Evrópusambandið – en það eru reyndar mikið til sömu trúarbrögðin.

Á morgun er 1. maí. Þá fara margir í göngur og sumir gera sér jafnvel grein fyrir því hvað er þeim fyrir bestu. Þau vísindi uppgötva menn yfirleitt á eigin skinni, aldrei undir handarkrikum manna sem halda að þeir verði byltingarmenn á milli einkaþotunnar og skyrtu­stæðunnar í Rúmfatalagernum, aldrei undir væng þeirra sem halda að Brussel sé ígildi himnaríkis – og mannkerti ígildi Krists.




Skoðun

Sjá meira


×