Erlent

Sögulegur sigur stjórnarandstöðunnar í Malasíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mahathir Mohamad er 92 ára og verður þar með elsti forsætisráðherra í heimi.
Mahathir Mohamad er 92 ára og verður þar með elsti forsætisráðherra í heimi. vísir/getty
Fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, Mahathir Mohamad, vann sögulegan sigur í þingkosningum sem fram fóru í landinu í dag.

Bandalag hans sem myndað var gegn ríkisstjórn landsins fékk 115 sæti á malasíska þinginu en 112 sæti þarf til að geta myndað ríkisstjórn.

Mahathir, sem er 92 ára gamall og þar með elsti forsætisráðherra í heimi, náði með bandalagi sínu að sigra Barisan Nasional-bandalagið sem hefur verið við völd í Malasíu í meira en 60 ár, eða allt frá því að landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi.

Mahathir var hættur afskiptum af stjórnmálum þegar hann ákvað að bjóða sig fram gegn fyrrum samstarfsmanni sínum, fráfarandi forsætisráðherra Najib Razak.

Eftir að úrslitin voru ljós sagði Mahathir að hann væri ekki að leita eftir hefndum heldur vildi hann hans koma á lögum og reglum í landinu á ný.

Mahathir var eitt sinn meðlimur í Barisan Nasional-bandalaginu en sagði sig úr því árið 2016 eftir að Najib var sakaður um að hafa stungið 700 milljónum dollara í vasann úr einum af fjárfestingarsjóðum ríkisins.

Mahathir sagði að hann vildi ekki tengjast bandalagi þar sem spillingin grasseraði en Najib neitaði öllum ásökunum og var hreinsaður af þeim af malasískum yfirvöldum.

Málið er þó enn til rannsóknar í öðrum löndum og hefur Najib verið sakaður um að þagga málið niður í Malasíu með því að reka tiltekna embættismenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×