Enski boltinn

Carrick verður í byrjunarliðinu í sínum síðasta leik á ferlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Carrick kveður sem leikmaður á sunnudaginn.
Michael Carrick kveður sem leikmaður á sunnudaginn. vísir/getty
Michael Carrick, fyrirliði Manchester United, verður í byrjunarliðinu í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar þegar að United tekur á móti Watford á Old Traffor á sunnudaginn. Það verður hans síðasti leikur á ferlinum.

José Mourinho, knattspyrnustjóri félagsins, staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag en Carrick verður ekki í leikmannahópnum í næst síðasta leiknum á móti West Ham í Lundúnum á fimmtudaginn.

Leikurinn verður númer 464 fyrir Manchester United en Carrick, sem var keyptur fyrir 16 milljónir punda frá Tottenham sumarið 2006, hefur reynst einn besti miðjumaður í sögu liðsins.

Hann hefur unnið ensku úrvalsdeildina fimm sinnum, Meistaradeildina einu sinni, bikarinn einu sinni og Evrópudeildina einu sinni en meiðsli hafa haldið honum frá vellinum ansi mikið undanfarin misseri.

Carrick er ekki á leið frá Manchester United því hann verður hluti af þjálfaraliðinu frá og með næstu leiktíð og Mourinho segir margt í enska miðjumanninum sem mun nýtast Portúgalanum.

„Það mikilvægasta er að vera góður maður. M-A-Ð-U-R, með hástöfum. Alvöru maður. Það er ekki nógu mikið af þeim í fótboltanum þannig að þegar að þú finnur einn slíkan þarf maður að passa upp á hann,“ sagði José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×