Innlent

Vill fella niður tolla á móðurmjólk fyrir fyrirbura eftir erindi Landspítala

Kjartan Kjartansson skrifar
Frosin móðurmjólk hefur verið flutt inn fyrir fyrirbura á vökudeild Landspítalans. Myndin er úr safni.
Frosin móðurmjólk hefur verið flutt inn fyrir fyrirbura á vökudeild Landspítalans. Myndin er úr safni. Vísir/Getty
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp sem kveður meðal annars á um að tollar á innflutta móðurmjólk verði felldir niður. Vökudeild Landspítalans hafði gert athugasemd við kostnað við innflutning á frosinni móðurmjólk handa fyrirburum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að vökkudeildin hafi flutt inn frosna móðurmjólk frá Danmörku með hraðpósti og þurft að greiða toll af henni. Áætlað er að ríkið verði af um 37.000 krónum á ári vegna niðurfellingu tollanna.

Í frumvarpi ráðherrans um breytingar á tollalögum er einnig lagt til að innleiðingu á auknum kvóta vegna innflutnings á upprunatengdum ostum verði hraðað.

Samkvæmt tollasamningum Íslands og Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að á næstu þremur árum verði tollkvóti fyrir upprunatengda osta aukinn um 70 tonn á ári eða alls 210 tonn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aukningin komi að fullu til framkvæmda á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×