Erlent

Pompeo aftur í Pjongjang

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mike Pompeo tekur hér í hönd Kim Jong-un við upphaf fundar þeirra.
Mike Pompeo tekur hér í hönd Kim Jong-un við upphaf fundar þeirra. Hvíta húsið
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, er kominn aftur til Pjongjang þar sem hann leggur nú grunn að sögulegum fundi Bandaríkjaforseta og leiðtoga Norður-Kóreu.

Pompeo segist vona að heimsókn sín reki smiðshöggið á undirbúninginn fyrir komandi viðræður, sem í aðra röndina munu lúta að afkjarnorkuvopnavæðingu Kóreuskagans.

Sjá einnig: Mike Pompeo fór í leyniferð til Norður-Kóreu og hitti Kim

Þá telur breska ríkisútvarpið að heimsókn Pompeo sé einnig hugsuð sem tilraun til að liðka fyrir losun þriggja Bandríkjamanna sem hírast í norður-kóreskum fangelsum. Utanríkisráðherrann biðlaði að minnsta kosti til stjórnvalda í Pjongjang, áður en hann steig upp í flugvélina og flaug austur, að „gera hið rétta í stöðunni.“ Bandaríkjastjórn hafi reynt að fá þríeykið laust úr haldi í um 17 mánuði.

Pompeo segir að „gott samband“ hafi myndast á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu á fyrri fundi sínum með Kim Jong-un, sem fram fór í síðasta mánuði. Talsmaður suður-kóreska forsetaembættisins segir að ekki sé því ólíklegt að Kim Jong-un fyrirskipi um frelsun fanganna, sem vott um þíðuna sem virðist ríkja í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu þessa dagana. 


Tengdar fréttir

Bandaríkjaher áfram í Suður-Kóreu

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa tekið af allan vafa um áframhaldandi veru Bandaríkjahers í landinu, sama hvernig samningaviðræður milli ríkjanna á Kóreuskaga kunna að þróast.

Kjarnorkuvopn gegn loforði um enga innrás

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sagði Moon Jea-in, forseta Suður-Kóreu, að hann væri tilbúinn til að láta kjarnorkuvopn sín frá sér, gegn friðarsamkomulagi og því að Bandaríkin lofuðu að ráðast aldrei á Norður-Kóreu.

Yfirlýsingin verði ekki pólitískt deilumál

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, kallaði í gær eftir því að suðurkóreska þingið fullgilti yfirlýsinguna sem hann undirritaði með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, eftir fund þeirra í landamærabænum Panmunjom á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×