Grindvíkingurinn Björn Berg Bryde skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hann skoraði fyrra mark Grindavíkur í 2-0 sigri á Keflavík í kvöld.
„Ég vissi að ég myndi skora í dag því ég er í skónum hans Andra Rúnars þannig að það kom ekkert annað til greina," sagði Björn í samtai við Vísi eftir leik.
Skórnir sem hann talar um eru af Andra Rúnari Bjarnasyni, fyrrum leikmanni Grindavíkur, sem varð markahæstur í Pepsi-deildinni í fyrra þegar hann jafnaði markametið margfærga og skoraði 19 mörk.
„Ég fékk þá lánaða í fyrra og ætlaði að borga honum fyrir þá í vetur en hann sagði mér að hirða þá svo lengi sem ég færi að skora þá. Það er allt á réttri leið,“ sagði Björn Berg skælbrosandi. Er stefnan sett á 19 mörk líkt og Andri gerði í fyrra?
„Aldrei að vita, 20 kannski.“
Sigurinn var sanngjarn í dag og eftir að Grindvíkingar komust yfir í upphafi síðari hálfleiks var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda.
„Keflavík eru með hörkulið og við vissum að ef við myndum halda hreinu þá værum við alltaf líklegir. Það var stefnan í dag og það gekk svo sannarlega eftir.“
„Í síðasta leik vorum við ekki nógu beittir. Við stóðum vörnina ágætlega en ekki nógu beittir sóknarlega og héldum boltanum illa. Í dag héldum við boltanum vel, vorum beittir á síðasta þriðjungi og uppskárum eftir því,“ sagði Björn Berg en Grindavík tapaði 1-0 fyrir FH í fyrstu umferðinni.
![Fréttamynd](/static/frontpage/images/hadegisfrettir.jpg)