Erlent

Navalny dreginn á brott í fjöldamótmælum gegn Putin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Handtökur voru gerðar víða um Rússland.
Handtökur voru gerðar víða um Rússland. Vísir/EPA
Meira en 1.600 hundruð mótmælendur voru handteknir víðsvegar um Rússland í dag í mótmælum í aðdraganda þess að fjórða kjörtímabil Vladimir Putin, forseta Rússland hefst.

Þúsundir mótmælenda komu saman til þess að mótmæla því að á mánudaginn verður Putin settur í embætti forseta í fjórða sinn á formlegan hátt en lögregla í Rússland var með mikinn viðbúnað vegna mótmælanna. Mestur var hitinn í Moskvu, höfuðborg Rússlands, þar sem 700 manns voru handteknir.

Meðal þeirra sem var hnepptur í hald lögreglu var leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, hinn 41 árs gamli Alexei Navalny. Var hann einn af þeim sem skipulögðu mótmælin og handtók lögregla hann aðeins örfáum mínútum eftir að hann mætti til mótmælanna. Var hann dreginn í burtu af lögreglunni.

Formlega séð voru mótmælin ólögleg en yfirvöld á hverjum stað þurfa að gefa leyfi fyrir mótmælum. Voru slík leyfi ekki fyrir hendi á mörgum stöðum.

Alls var mótmælt í um 90 borgum allt frá Kaliningrad í vestri til Khabarovsk í austasta hluta Rússlands, en handtökur voru gerðar í 26 borgum.

Mótmælin voru undir formerkjum slagorðins: „Hann er ekki okkar keisari“ með tilvísun til langrar valdatíðar Putins sem setið hefur nær óslitið á valdastól frá árinu 2000.


Tengdar fréttir

Víða boðað til mótmæla í Rússlandi

Mótmæli hafa verið boðuð víða í Rússlandi í dag í tilefni þess að Vladimír Pútín verður settur í embætti forseta í fjórða sinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×