Innlent

Hefja aftur flug milli Akureyrar og Keflavíkur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stóra systir, Bombardier Q400, í loftinu við komuna til Reykjavíkur þann 24. febrúar síðastliðinn. Litla systir, Q200, við Flugfélagsafgreiðsluna. Sú stærri tekur 72-76 farþega en sú minni 37 farþega.
Stóra systir, Bombardier Q400, í loftinu við komuna til Reykjavíkur þann 24. febrúar síðastliðinn. Litla systir, Q200, við Flugfélagsafgreiðsluna. Sú stærri tekur 72-76 farþega en sú minni 37 farþega. Vísir/Vilhelm
Air Iceland Connect ætlar að hefja aftur flug á milli Keflavíkurflugvallar og flugvallarins á Akureyri. Ekki eru nema tveir mánuðir síðan að fregnir bárust af því að innlandsflugi milli þessara tveggja áfangastaða yrði hætt, eftir liðlega eins árs langa tilraun.

Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn ef marka má vef Túrista. Forsvarsmenn Air Iceland Connect hafa, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að lítill áhugi erlendra ferðamanna hafi ráðið niðurlögum fyrri tilraunar, ákveðið að reyna aftur á flug milli Akureyrar og Keflavíkur.

Sjá einnig: Ekki tilbúin að gefa innanlandsflug frá Keflavík upp á bátinn

Flugáætlunin er byggð upp í kringum morgunflug frá Keflavíkurflugvellli að sögn Túrista. Það þýðir að flogið verður frá Akureyri árla morguns og svo aftur norður seinni partinn.

Áætlunarflugið mun hefjast í byrjun október og verður flogið fjórum sinnum í viku. Flogið verður í minni vélum en í fyrri tilraun, nú mun Air Iceland Connect reiða sig á Bombardier Q200 í stað Q400 áður. Með því vonar flugfélagið að áhugi Norðlendinga geti borið áætlunarflugið uppi og að það þurfi því ekki að reiða sig á áhugalausa ferðamenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×