Erlent

Stefnir í spennandi kosningar í Tyrklandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tyrkir ganga að kjörborðinu í júní næstkomandi.
Tyrkir ganga að kjörborðinu í júní næstkomandi. Vísir/afp
Fjórir tyrkneskir stjórnarandstöðuflokkar komust í gær að samkomulagi um að mynda kosningabandalag og bjóða saman fram í þingkosningunum sem fara fram 24. júní næstkomandi.

Lýðveldisflokkurinn (CHP), Góði flokkurinn, Hamingjuflokkurinn og Demókratar mynda bandalagið en CHP er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á yfirstandandi þingi. Hefur 116 af 550 samanborið við 316 sæti Réttlætis- og þróunarflokks (AKP) Receps Tayyip Erdogan forseta.

Miðað við skoðanakannanir er óljóst hvort menn Erdogans haldi meirihluta sínum á þinginu. Kosningabandalag undir forystu AKP mældist með 44,2 prósenta fylgi í könnun sem PIAR gerði á þriðjudag. Hins vegar mældust CHP og Góði flokkurinn með 40,9 prósent samanlagt á meðan fylgi Hamingjuflokksins og Demókrata var talið með öðrum flokkum.

Um er að ræða fyrstu kosningarnar frá því Tyrkir samþykktu í þjóðar­atkvæðagreiðslu að færa völdin frá forsætisráðherra til forseta. Forsetakosningar fara fram samhliða þingkosningum. Erdogan mælist með tæplega tvöfalt meiri stuðning en næstvinsælasti frambjóðandinn, Meral Aksener úr Góða flokknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×