Skoðun

Gæludýr í félagslegu húsnæði – tímanna tákn

Kristín Sævarsdóttir skrifar
Íbúar í félagslegum íbúðum um land allt búa ekki við sömu reglur um gæludýrahald og aðrir borgarar. Það tel ég óeðlilegt og vil gjarnan leggja mitt af mörkum til að fá reglunum breytt. Á fundi Velferðarráðs Kópavogs 4. apríl sl. lagði ég fram tillögu um breytingar á reglum um gæludýrahald í félagslegum íbúðum bæjarins þannig að íbúarnir búi við sömu reglur um gæludýrahald og aðrir íbúar bæjarins.

Gæludýrahald er nokkuð algengt í samfélaginu og fjöldinn allur af gæludýrum gleður fólk um land allt. Kettir og hundar eru þó líklega algengustu gæludýrin hér á landi en um 18 - 20% heimila halda hund eða kött. Í dag er hunda- og kattahald heimilt í langflestum sveitarfélögum að uppfylltum vissum skilyrðum.

Á hundaeigendur eru t.d. lagðar ríkar skyldur um örmerkingu, ormahreinsun og skráningu og umsjónarmönnum þeirra gert að greiða gjöld til sveitarfélagsins auk þess sem lausaganga hunda er bönnuð. Algengt er að í samþykktum um kattahald séu gerðar kröfur um örmerkingu og að kettir beri hálsól auk þess sem gelda skal fressketti sem ganga utandyra.

Reglur um hunda- og kattahald hafa rýmkast

Hunda- og kattaeigendur eru á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum og búa í ýmiskonar húsnæði. Fólk sem býr í eigin sérbýli nýtur þess frelsis að geta haldið hunda eða ketti án þess að spyrja kóng eða prest, svo lengi sem þau fari eftir almennum reglum um dýrahald og sýni almenna tillitssemi gagnvart nágrönnum og hafi stjórn á gæludýrum sínum eins og unnt er.

Í fjölbýli er málið aðeins flóknara þó heldur hafi ræst úr árið 2014 þegar Alþingi gerði breytingu á fjöleignarhúsalögunum sem taka almennt til hunda og kattahalds í fjölbýlishúsum. Áður gat hver eigandi, þegar inngangur eða stigagangur er sameiginlegur, beitt neitunarvaldi gagnvart hunda- eða kattahaldi og það af hvaða ástæðu sem var. Nú þarf ekki samþykki sameigenda í fjölbýlishúsum þegar íbúð hefur ekki sameiginlegan inngang eða stigagang. Í öðru lagi þarf nú samþykki 2/3 hluta eigenda fyrir hunda- og kattahaldi þegar inngangur eða stigagangur í fjölbýlishúsi er sameiginlegur.

.…en ekki í félagslegum íbúðum

Frá 1. mars sl var ákveðið að fara af stað með tilraunaverkefni um að leyfa hundum og köttum að fara í Strætó og einnig hafa verið samþykktar nýjar reglur um hollustuhætti sem leyfa gæludýr á veitingahúsum að uppfylltum vissum skilyrðum. Unnið er að gerð leiðbeininga um matvælaöryggi á þeim veitinga- og kaffihúsum sem vilja leyfa gestum að koma með hunda og ketti sína þangað inn og má búast við að hunda- og kattavinir geti komið með gæludýrin sín á kaffihús síðar í sumar.

Frjálslyndið í hunda- og kattahaldi er þannig að aukast á mörgum sviðum og gleðjast gæludýraeigendur við hverja þá hindrum sem rutt er úr vegi. Enn er þó gæludýrahald almennt bannað í félagslegum íbúðum bæði hjá sveitarfélögum og einnig hjá sjálfseignarstofnunum eins og Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Því þarf að breyta! Sumir sem búa í félagslegu húsnæði búa við einangrun og rannsóknir sýna að gæludýrahald getur oft orðið til að rjúfa þá einangrun og minnka einmanaleika, auk þess sem hundar og kettir gæða líf okkar gleði og auka lífsgæði. Tillaga mín bíður umsagnar frá eignarsviði Kópavogsbæjar en ég vona að hún nái í gegn og að fleiri sveitarfélög fylgi á eftir.

Kristín Sævarsdóttir

Varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í Velferðarráði Kópavogs.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×