Skoðun

Þegar brestur og brotnar - verður úr að bæta

Edith Alvarsdóttir skrifar
Borgin okkar - Reykjavík býður fram kraftmikla reynslu, áræðni og þor í komandi borgarstjórnarkosningum, vegna þess sem Reykvíkingar finna, þegar á þeim er brotið:

- Í leikskólum, þar sem margt er í molum.

Ástandið í leikskólum borgarinnar hefur vart farið fram hjá neinum. Illa viðhaldin hús þar sem mygla fær að grassera, með tilheyrandi óþægindum, jafnvel veikinum fyrir börn og starfsfólk. Manneklan hefur valdið því að foreldrar hafa þurft að vera frá vinnu eða námi, eða mæta með börn sín til vinnu.

Eitt af kosningaloforðum VG var gjaldfrjáls leikskóli. Það var efnt með þeim hætti að afsláttur var veittur sem nam 800 kr. á hvert barn. Fyrir þetta gátu foreldrarnir keypt hálfan bleyjupakka. Á sama tíma hækkaði meirihlutinn fæðugjald fyrir börnin sem nam meira en lækkunin, sem leiddi til raun hækkunar.

Í ágúst 2016 sagði Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar varðandi það að 16 og 17 mánaða gömul börn komist í leikskóla. „..... okkar verkefni er að finna fjármagnið til að geta boðið þjónustuna,“ og hélt áfram „Við þurfum áfram að borga starfsfólkinu laun og það er þar sem verkefnið liggur, að fjármagna þjónustuna við þau börn sem koma ný inn á leikskólana.“

Nú ætlar Dagur B. að fjölga leikskólaplássum um 800 á kjörtímabilinu og bjóða börnum 12 til 18 mánaða pláss. Hvernig hann ætlar að framkvæma það er óljóst þegar ekki hefur verið hægt að manna leikskólana sem fyrir eru eða bæta úr húsakosti og fjarlægja myglu.

Börnin búa að fyrstu gerð, það verður að vanda til verka, þau eru framtíðin. Það þarf að búa þannig um að hverju og einu þeirra sé mætt á þann hátt sem hentar best. Það hentar ekki öllum börnum að vera á leikskóla. Heilbrigðisstarfsfólk hefur t.d. bent á að ónæmiskerfi ungbarna sé ekki nógu þroskað fyrir veru í svo stórum hópum. Þess vegna m.a. þarf að gera foreldrum kleift að leita annarra leiða, eins og því að vera heima með börn sín þar til foreldrarnir telja börnin vera tilbúin. Greiða foreldrunum það fjármagn sem færi að öðrum kosti í leikskólaplássið fyrir barnið.

Börnin eru okkar dýrmætasta eign, þau eru framtíðin sem koma til með að taka við samfélaginu þegar fram í sækir. Það þykir þvi undrun sæta hversu illa er hugað að því að hlúa að þeim, styrkja hvert og eitt þeirra á þann hátt sem hentar best.

Höfundur skipar 2. sætið á framboðslista Borgin okkar Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×