Erlent

Ekki alþjóðlegt neyðarástand

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ebóla er hættuleg veirusýking.
Ebóla er hættuleg veirusýking. Nordicphotos/AFP
Ekki er enn tilefni til þess að lýsa yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna ebólufaraldurs sem geisar nú í Austur-Kongó. Þessa afstöðu tók Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) á fundi sínum í Genf í gær. Því er ljóst að ekki verður ráðist í takmarkanir á ferðalögum til og frá ríkinu enn sem komið er.

Þann 8. maí síðastliðinn, að því er kemur fram í fundargerðinni, var WHO gert viðvart um að tvö tilfelli af ebólu hefðu greinst í Bikoro í Equateur-fylki. Nú hafi tilfelli einnig greinst í Iboko og Mbandaka, borg sem telur rúma milljón íbúa. Alls hafi 45 tilfelli greinst á undanförnum rúmum mánuði og 25 hafa látist, flestir í Bikoro.

Að mati WHO valda einkenni ebólufaraldursins áhyggjum og er talin hætta á hraðri útbreiðslu þar sem smitið hefur nú náð til stórborgar.

Afar líklegt þykir sömuleiðis að sjúkdómurinn smitist út fyrir landamærin þar sem Mband­aka stendur nærri Kongóá. Erfitt sé að koma í veg fyrir að faraldurinn breiðist út til nágrannalanda vegna lélegra innviða.

Hins vegar tók WHO fram í fundargerðinni að viðbrögð ríkisstjórnar Austur-Kongó og annarra hefðu verið snör og góð. Viðbrögðin gæfu ástæðu til þess að vona að fljótlega takist að ná stjórn á aðstæðum og þá boði gott að verið sé að undirbúa bólusetningu.


Tengdar fréttir

Tæplega hálf milljón barna á barmi sveltu

"Við erum ekki að segja að börn gætu dáið úr hungri í Kasai. Við erum að segja að börn séu nú þegar að deyja, þau eru að deyja, þau hafa dáið, í algjörri þögn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×